1.1 C
Selfoss

Sækjum kaupmátt og verjum fólkið á lægri launum

Vinsælast

Ég hef unnið lengi með Eflingu-stéttarfélagi og sat í stjórn félagsins um nokkurra ára skeið eftir að Boðinn sameinaðist Eflingu. Starf félagsins hefur verið farsælt allt frá stofnun þess og ég hika ekki við að lýsa yfir stuðningi við framboð stjórnar og trúnaðarráðs félagsins. Mér líst sérstaklega vel á Ingvar Vigur, formannsefnið þeirra sem ég vann með í stjórninni á sínum tíma. Hann er traustur og með honum er gott og öflugt fólk. Í verkalýðsbaráttunni eða stjórnmálum vinnast sigrar ekki með upphlaupum. Þetta er langhlaup. Ekki hef ég heldur trú á því að róttækur sósíalismi verði leiðarljós okkar vinnandi fólks í verkalýðsmálum í framtíðinni. Það er búið að reyna þá leið. Ég hef meiri trú á því sem forystumenn Eflingar hafa lagt áherslu á. Að sækja aukinn kaupmátt, verja fólkið okkar sérstaklega á lægri launum og berjast um leið fyrir auknum réttindum. Efling hefur verið leiðandi innan ASÍ á undanförnum tveimur áratugum og ég styð þessa stefnu áfram.

Ég er mjög ánægður með framboð stjórnar Eflingar sem nú gefur kost á sér. Það er alltaf nauðsyn á endurnýjun, en stjórn í verkalýðsfélagi þarf líka að búa yfir reynslu og þekkingu. Það eru fá svið félagsmála þar sem reynir jafn mikið á það að við höfum reynt fólk sem þekkir kjarasamninga og túlkun þeirra og er vant því að vinna úr erfiðum málum. Þetta allt höfum við í stjórn Eflingar og starfsmannaliði. Þar er gríðarleg þekking sem reynir á í hverjum einasta kjarasamningi.

Innantóm slagorð og hótanir um verkföll eða beinar árásir á stjórnarmenn Eflingar eða starfsfólk eru ekki vænleg til árangurs. Þeir sem eru reyndir í verkalýðsbaráttunni, vita að verkföll eru neyðarráðstöfun þegar allt annað þrýtur. Það er ekki vænlegt til árangurs að byrja með hótanir um vinnustöðvanir fyrr en allt annað hefur verið reynt. Það höfum við séð í Eflingu á undanförnum árum að við hikum ekki við að beita verkfallsvopninu eins og í sjómannasamningunum síðast. Það ber því vott um vanþekkingu þegar fólk talar eins og við höfum ekki reynslu af verkföllum.

Mikilvægast að leita árangurs

En mikilvægast er að leita árangurs. Að ná árangri í kjarabaráttu er meginviðfangsefni stéttarfélaga og í dag er þetta oft flókið viðfangsefni sem þarf að vinna með fólkinu í stéttarfélögunum og launafólkinu úti á vettvangi og í samninganefndum. Það hefur verið aðalsmerki Eflingar að þar hefur oftast náðst einróma samstaða um kröfugerð og hvernig við mætum atvinnurekendum.

Mikilvægast af öllu er traustið. Ég hef orðið langa reynslu bæði af starfsmönnum Eflingar og stjórnarmönnum. Traustið þarf maður að ávinna sér með því að vera staðfastur og stefnufastur, ekki bara þegar vel gengur, heldur einnig þegar sækir á brattann. Nú þegar nýr formaður býður sig fram á málaefnagrunni sem ég þekki mjög vel, hika ég ekki við að lýsa við hann og framboðið fullum stuðningi.

Ég skora því á félagsmenn Eflingar hér á svæðinu að styðja Ingvar Vigur Halldórsson til forystu í Eflingu og tryggja þannig að áfram verði unnið af heilindum og festu að árangri í baráttu okkar launafólks fyrir betri kjörum.

Þórður Ólafsson, fyrrum formaður Boðans og fyrrum stjórnarmaður í Eflingu, samninganefndarmaður og á sæti í trúnaðarráði félagsins.

Nýjar fréttir