0.6 C
Selfoss

Nýr útibússtjóri Sjóvár á Selfossi

Vinsælast

Guðjón Bjarni Hálfdánarson hefur verið ráðinn nýr útibússtjóri Sjóvár á Selfossi og tók hann við starfinu þann 1. janúar sl. af Adolfi Bragasyni, sem haldið hefur í nám í Danmörku.

Guðjón er lögfræðingur að mennt og starfaði áður m.a. sem lögfræðingur hjá Vodafone, hjá Lögmönnum Suðurlandi og framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Dattaca Labs. Guðjón er trúlofaður Rakel Dögg Guðmundsdóttur, þjónustustjóra einstaklingssviðs útibús Arion banka á Selfossi og eiga þau þrjú börn.

„Þjónustusvæðið er víðfeðmt, en það nær frá Þorlákshöfn allt austur að Öræfum. Útibúin eru öll opin og fagna starfsmenn okkar því að fá viðskiptavini í heimsókn til að ræða tryggingar þeirra. Það er alltaf heitt á könnunni hjá okkur og við gefum fólki alltaf þann tíma sem þarf til að fara yfir þarfir þess og verð á þjónustunni,” segir Guðjón.

„Sjóvá hefur lagt mikið upp úr því að hlusta á viðskiptavini sína. Í lok janúar var Sjóvá efst tryggingafélaga í Íslensku ánægjuvoginni og gefur það okkur skilaboð um að við séum á réttri leið. Við í útibúinu á Suðurlandi munum ekki gefa okkar eftir hvað þetta varðar og halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnin hefur verið og tryggja að viðskiptavinir Sjóvár upplifi áfram að þeir skipti okkur máli,” segir Guðjón.

Höfuðstöðvar Sjóvár á Suðurlandi eru á Selfossi og þar starfa ásamt Guðjóni þau Guðbjörg Hulda Albertsdóttir og Guðmundur Karl Sigurdórsson. Undir útibúið heyrir útibúið í Vestmannaeyjum og umboðið Þorlákshöfn.

Nýjar fréttir