10 C
Selfoss
Home Fréttir Áskorun í tilefni af Alþjóðlega krabbameinsdeginum 2018

Áskorun í tilefni af Alþjóðlega krabbameinsdeginum 2018

0
Áskorun í tilefni af Alþjóðlega krabbameinsdeginum 2018

Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn er í dag sunnudaginn 4. febrúar. Af því tilefni býður Krabbameinsfélag Íslands almenningi í heimsókn í Skógarhlíð 8 kl. 13:00–15:00. Félagið skorar einnig á stjórnvöld að beita sér fyrir auknum forvörnum gegn krabbameinum og hvetur almenning til að skrifa undir áskorunina.

Alþjóðakrabbameinssamtökin (UICC) hafa valið 4. febrúar ár hvert til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum. Nú er þriggja ára herferð samtakanna í hámarki, Við getum. Ég get. Herferðin miðar að því að fækka þeim sem greinast með krabbamein og minnka byrðar af völdum krabbameins á samfélagið.

„Á Alþjóðlega krabbameinsdeginum getum við öll velt fyrir okkur hvernig við getum látið til okkar taka í baráttunni gegn krabbameinum og þrýst á aðgerðir yfirvalda til að bjarga lífum og auka lífsgæði krabbameinssjúklinga,” segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Lífstílsbreytingar á síðustu árum og áratugum hafa orðið til þess að fleiri eiga á hættu að greinast með krabbamein. Reykingar, óhollt mataræði og kyrrseta eru meðal helstu áhættuþátta fyrir krabbamein.

Almenningur getur haft áhrif á eigin heilsu með því að leggja áherslu á hreyfingu og hollt mataræði, taka þátt í skimun og þekkja einkenni krabbameina.

Krabbameinsfélag Íslands skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir forvörnum sem felast meðal annars í hvatningu til heilbrigðra lífshátta. Mikilvægt er að yfirvöld sýni frumkvæði og stuðli þannig að því að færri greinist með krabbamein, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Krabbameinsfélagið skorar á sveitarstjórnarfólk að gefa lýðheilsu meira vægi og efla forvarnir gegn krabbameinum með því meðal annars að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu

Krabbameinsfélagið skorar einnig á þingmenn og ríkisstjórn að beita sér fyrir bættri lýðheilsu meðal annars með því að:

  • halda áfram þeirri vinnu sem hafin var við krabbameinsáætlun og ljúka henni hið fyrsta
  • banna reykingar á almannafæri
  • hefja skimun fyrir ristilkrabbameini
  • setja skýra stefnu og aðgerðaráætlun í tóbaksvörnum og setja lög um rafrettur
  • tryggja að áfengisauglýsingar verði áfram bannaðar og koma í veg fyrir duldar áfengisauglýsingar

Fræðsla um tengsl lífstíls og áhættu á krabbameinum er mikilvægt forvarnarskref. Krabbameinsfélagið hefur unnið fjölbreytt fræðsluefni sem nálgast má hér.

Undirskriftasöfnun
Krabbameinsfélagið stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að grípa til aðgerða og láta verkin tala. Hægt er að skrifa undir hér.

Opið hús
Almenningi er boðið í heimsókn í hús Krabbameinsfélags Íslands, Skógarhlíð 8 í Reykjavík, sunnudaginn 4. febrúar. Kynning á starfsemi í húsinu fer fram í Ráðgjafarþjónustu og á Leitarstöð þar sem skoða má endurnýjaðan tækjabúnað til leitar að brjóstakrabbameini. Húsið er opið frá kl 13:00–15:00.

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra, fagnar deginum einnig með viðburðinum Perlað af Krafti í Hörpu kl. 13:00–17:00. Þar fer fram lokahnykkur í fjáröflunarátaki Krafts þar sem almenningi er boðið að perla armbönd við lifandi tónlist.