7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Rs-veira er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa

Rs-veira er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa

0
Rs-veira er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri.
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri.

RS-veira er kvefveira sem leggst á öndunarfærin. Sýkingin veldur kvefi og oft bólgu og þrengingum í smáum berkjum lungnanna með öndunarerfiðleikum og hvæsandi öndun, einkum hjá mjög ungum börnum. Þetta er algengur sjúkdómur sem leggst á alla aldurshópa en getur lagst þungt á fyrirbura og ung börn. Faraldrar af völdum RS-veirunnar eru árvissir, þeir koma að vetrarlagi og standa venjulega í 2–3 mánuði.

Smitleiðir og meðgöngutími
RS-veiran smitast einkum með beinni snertingu milli einstaklinga, með úðasmiti við hósta eða hnerra. Veiran getur lifað í nokkrar klukkustundir á leikföngum eða á borðplötu og getur smitast þannig og borist í líkamann í gegnum nef, munn og augu. Sýktur einstaklingur er mest smitandi fyrstu dagana eftir að hann veikist en getur haldið áfram að vera smitandi í eeinhverjar vikur.

Einkenni sjúkdómsins
Einkenni ná í flestum tilvikum hámarki eftir 3-6 daga en sjúkdómslengd er ca. 1-2 vikur. Í byrjun eru einkennin oftast, kvef hósti og nefstífla. Þau geta líka verið öndunarerfiðleikar, hár hiti, mikill hósti, hvæsandi öndun, hröð erfið öndun, blámi á húð vegna skorts á nægu súrefni og oft fylgir eyrnabólga. Sjúklingar sem veikjast alvarlega af völdum RS-veirunnar geta þurft sérhæfða aðstoð á sjúkrahúsi.Yfirleitt eru einkennin meira áberandi eftir því sem barnið er yngra. Hjá fullorðnum og eldri börnum eru einkenni oftast mild og líkjast vægri kvefpest.

Leitaðu fljótt aðstoðar á heilsugæslu eða bráðamóttöku ef barnið:

  • Fær astmaöndun. Einkenni byrja oft sem kvef og hósti en síðan surg, píp eða íl í brjóstinu.
  • Sýnir merki um aukna öndunarerfiðleika, s.s hraðari öndun, verri hósta og aukna slímmyndun. Þessi einkenni koma yfirleitt 1-3 sólahringum eftir upphaf sýkingar.
  • Drekkur illa og virðist vera að þorna, s.s minnkuð tára- og þvagframleiðsla, þurr slímhúð og barnið léttist.

Leitaðu strax aðstoðar ef barnið:

  • Fær stutt öndunarhlé eða blámarkast vegna kvefsins.

Greining
RS sýking er ofstast greind með heilsufarssögu barns og líkamsskoðun. Hægt er að taka sýni úr nefkoki til að staðfesta sýkinguna.

Meðferð
Sýklalyf virka ekki á RS veiruna, meðferð felst í að draga úr óþægindum og einkennum t.d með notkun saltvatnsdropa í nasir, sjúga úr vitum og hitalækkandi/verkjastillandi meðferð. Stundum þarf að gefa barni súrefni eða innúðarlyf. Mikilvægt er að halda vökva að barninu.
Eftir snertingu við smitaðan einstakling er mikilvægt að gæta fyllsta hreinlætis og þvo hendur vel til að forðast smit.

Að lokum vil ég minna á að hægt er að hafa samband við 1700 allan sólahringinn, þar veita hjúkrunarfræðingar faglega ráðgjöf.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvarinnar á Klaustri.