0.6 C
Selfoss

Sigurður hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2017

Vinsælast

Þann 11. janúar sl. veitti forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson Menntaverðlaun Suðurlands 2017 við hátíðlega athöfn í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þetta var í tíunda sinn sem verðlaunin eru veitt og ákvað úthlutunarnefnd á vegum Samtaka Sunnlenskra Sveitarfélaga að veita Sigurði Sigursveinssyni, framkvæmdastjóra Háskólafélag Suðurlands og fyrrum skólameistara Fölbrautaskóla Suðurlands, verðlaunin fyrir framlag sitt til eflingar menntunar á Suðurlandi með aðkomu sinni að átaksverkefnum í tengslum við uppbyggingu grunnnáms á háskólastigi sem og að stuðla að bættri aðstöðu til fjarnáms. Alls voru 29 meðmælendur sem stóðu að tilnefningunni, en þar segir:

Sigurður á langan og farsælan feril í menntamálum og rannsóknum á Suðurlandi, m.a. sem skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands og hefur síðastliðin ár gegnt starfi framkvæmdarstjóra Háskólafélags Suðurlands.

Hann hefur lagt sig fram við eflingu menntunar á Suðurlandi til að mynda með aðkomu sinni að átaksverkefnum í tengslum við uppbyggingu grunnnáms á háskólastigi sem og að stuðla að bættri aðstöðu til fjarnáms. Er það í anda þeirrar byggðarstefnu sem er í gildi á Suðurlandi. Innan hennar er lögð áhersla á að hækka menntunarstig landshlutans, auka aðgengi að símenntun á svæðinu og kynna framboð háskólanáms.

Lykillinn að aukinni menntun og þekkingu er talinn felast í aðgengi íbúa að skólastofnunum á hverju svæði fyrir sig. Hafa verkefni Sigurðar undanfarin misseri snúið að því ásamt eflingu háskólamenntunar á Suðurlandi. Með auknu aðgengi og góðri aðstöðu til fjarnáms er verið að stuðla að auknu menntunarstigi sem dregið getur úr líkum á því að íbúar flytjist á brott til að sækja sér menntun annars staðar þar sem fólk jafnvel ílengist og flytur síður til baka.

Með aðstöðunni í Fjölheimum getur fólk hist sem er í svipaðri stöðu, skipst á skoðunum, ráðum og dáðum, deilt rýmum saman og hefur þar orðið til vinnustaður fyrir nemendur sem geta verið þar með fasta viðveru. Þá hefur skapast ákveðið þverfaglegt þekkingarsamfélag milli nemenda sem stunda þar nám á ólíkum sviðum og geta þessi tengsl jafnvel verið til frambúðar.

Einstakt viðmót Sigurðar sem einkennist af metnaði, áhuga, þolinmæði, umhyggju og sveigjanleika í garð þeirra sem nýta aðstöðuna í Fjölheimum er til fyrirmyndar og til eftirbreytni.“

Alls bárust 3 tilnefningar til Menntaverðlauna Suðurlands 2017 um verkefni, einstaklinga og/eða stofnanir og eru hin tvö verkefnin eftirfarandi:

  1. Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla fyrir að stuðla að tengslum skóla og nærsamfélags með því að standa fyrir „góðgerðardögum“ þar sem nemendur selja ýmis verk sem þau hafa unnið í skólanum til styrktar veigamiklum málefnum í nærsamfélagi skólans.
  2. Hvolsskóli​, Rangárþingi eystra fyrir framúrskarandi stefnu og árangur í tengslum umhverfis- og náttúruvitund, lýðheilsu, skóla og samfélags.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi sem er um leið hvatning til frekari dáða.

 

Nýjar fréttir