5.6 C
Selfoss
Home Fréttir Halldór Garðar Hermannsson íþróttamaður Ölfuss

Halldór Garðar Hermannsson íþróttamaður Ölfuss

0
Halldór Garðar Hermannsson íþróttamaður Ölfuss
Halldór Garðar Hermannsson íþróttamaður Ölfuss. 2017. Mynd: Hafnarfréttir/Valur.

Körfuknattleiksmaðurinn Halldór Garðar Hermannsson var útnefndur íþróttamaður Ölfuss árið 2017 í hófi sem fram fór 21. janúar sl. á vegum íþrótta- og æskulýðsnefndar Ölfuss.

Í umsögn íþrótta- og æskulýðsnefndar um Halldór Garðar segir: Halldór sem er fæddur 1997 hefur átt glæsilegt körfuboltaár. Hann hefur leikið með meistaraflokki frá unga aldri og verið sterkur leikmaður í yngri flokkum Þórs og í unglingalandsliðum KKÍ. Halldór er orðinn lykilleikmaður í meistaraflokki Þórs og hefur sett að meðaltali 13,4 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar í Íslandsmótinu í vetur. Halldór er reynslumikill leikmaður þrátt fyrir ungan aldur en hann hefur verið í öllum yngri landsliðum KKÍ og leikið á Norðurlandamótum og Evrópumótum. Halldór var lykilleikmaður með U20 ára landsliði Íslands sem tryggði sér sæti í 8 liða úrslitum á EM A-deild í sumar með mögnuðum sigri á sterku liði Svía. Ekkert landslið hefur náð eins góðum árangri á Evrópumóti.

Auk Halldórs Garðars voru tilnefnd til íþróttamanns Ölfuss 2017 þau Ingvar Jónsson golfari, Þorbergur Böðvar Bjarnason knattspyrnumaður, Katrín Eva Grétarsdóttir knapi, Róbert Khorchai Angeluson frjálsíþróttamaður, Axel Örn Sæmundsson badmintonmaður og Heiðar Örn Sverrisson akstursíþróttamaður.

Einnig voru viðurkenningar veittar til þeirra sem unnið hafa bikar- eða Íslandsmeistaratitil á árinu og/eða hafa keppt með landsliði Íslands í sinni grein.