4.5 C
Selfoss

Framsókn og óháðir bjóða fram í Árborg

Vinsælast

Í aðsendum pistli í Dagskránni, sem kemur út á morgun, kemur fram að Framsóknarfélag Árborgar mun bjóða fram undir nafninu Framsókn og óháðir í Árborg í sveitarstjórnarkosningunum sem fara fram í vor. Pistilinn rita Björn Harðarson, formaður Framsóknarfélags Árborgar, og Helgi Sigurður Haraldsson núverandi bæjarfulltrúi. Pistillinn er eftirfarandi:

Ágætu íbúar í sveitarfélaginu Árborg. Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í vor. Framsóknarfélag Árborgar hefur ákveðið að bjóða fram undir nafninu Framsókn og óháðir í þessum kosningum. Ástæðan er m.a. dvínandi áhugi fólks á þátttöku í stjórnmálastarfi og enn færri vilja binda sig við að vera skráðir félagar í stjórnmálaflokkum, sem oft er gerð krafa um þegar boðið er fram í nafni stjórnmálaflokka. Með þessu vill félagið bjóða velkomið fólk, sem hefur mikinn áhuga á að vinna að framgöngu málefna sveitarfélagsins og taka þátt í að móta stefnu þess og hrinda henni í framkvæmd.

Framundan er vinna framboðsins við að undirbúa kosningaáherslur þess og manna framboðslista. Í þeirra vinnu verða m.a. haldnir opnir fundir þar sem fólki gefst tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri og taka þátt í málefnavinnunni. Fyrsti fundurinn verður í Barnaskólanum á Stokkseyri, fimmtudaginn 18. janúar kl. 20. Aðrir fundir, m.a. á Eyrarbakka og Selfossi, verða auglýstir síðar. Það er mikilvægt að fá að heyra hugmyndir og framtíðarsýn sem flestra í þessum undirbúningi og viljum við því hvetja fólk til þátttöku. Allar frekari upplýsingar fást hjá formanni félagsins.

Björn Harðarson formaður Framsóknarfélags Árborgar.
Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi.

Nýjar fréttir