4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Heilsuvernd grunnskólabarna

Heilsuvernd grunnskólabarna

0
Heilsuvernd grunnskólabarna
Hugrún Jóna Hilmarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla.

Heilsuvernd grunnskólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ungbarna- og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar sjá um heilsuvernd skólabarna og er markmið hennar að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Embætti landslæknis hefur gefið út leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna sem skólahjúkrunarfræðingar á landinu öllu fara eftir og er notast við sameiginlegt skráningarkerfi.

Hlutverk skólahjúkrunarfræðinga er margþætt en þar má helst nefna skipulagða fræðslu og heilsueflingu til nemenda þar sem fjallað er um ákveðna þætti svo sem hollustu, svefn og hvíld, hreyfingu, tannvernd, hreinlæti, hamingju, hugrekki, slysavarnir og kynheilbrigði. Skimanir og skoðanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk þar sem gerðar eru hæðar -og þyngdarmælingar og sjónpróf, auk þess sem tekin eru einstaklingsviðtöl um lífstíl og líðan þar sem markmiðið er að styrkja vitund nemenda um eigin heilsu. Þessi viðtöl gera hjúkrunarfræðingum einnig kleift að grípa til úrræða ef nemendur tjá vanlíðan eða áhyggjur. Þá halda hjúkrunarfræðingar utan um bólusetningar allra nemenda í skólanum og bólusetja nemendur, í samráði við foreldra/forráðamenn, ef bólusetningar eru ófullnægjandi. Einnig sjá þeir um almennar bólusetningar í 7. og 9.bekk. Skólahjúkrunarfræðingar sinna einnig ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Þeir vinna í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. Skólahjúkrunarfræðingar sitja nemendaverndaráðsfundi í skólanum og einnig samráðsfundi með félagsþjónustunni og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Þá sinna skólahjúkrunarfræðingar einnig slysum og veikindum nemenda á þeim tíma sem hjúkrunarfræðingur er við störf.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Hugrún Jóna Hilmarsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla