8.9 C
Selfoss

Eldri borgarar vilja lýðheilsustíg á Selfossi

Vinsælast

Í desember sl. sendi stjórn Félags eldri borgara Selfossi eftirfarandi áskorun til bæjaryfirvalda í Sveitarfélaginu Árborg:

Stjórn Félags eldri borgara Selfossi skorar á bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar að koma upp lýðheilsustíg umhverfis lóð sjúkrahússins og lóð væntanlegs hjúkrunarheimilis á Selfossi sem allra fyrst.

Heilsubótarganga er góð forvörn við ellihrörnun og mun lýðheilsustígur á þessum stað því sinna því hlutverki vel og nýtast íbúum í húsnæði eldri borgara við Grænumörk og í þeim íbúðum sem verið er að byggja við Austurveg. Ennfremur mun rólfæru heimilisfólki á Fossheimum og Ljósheimum svo og væntanlegu hjúkrunarheimili gagnast slíkur stígur vel.

Vel gerður lýðheilsustígur á þessum stað mun stuðla að betri heilsu og vellíðan eldri borgara á Selfossi og mun örugglega draga úr öðrum kostnaði bæjarfélagsins vegna umönnunar aldraða.

Stígurinn þarf að vera vel fær fólki í hjólastólum og fólki með göngugrind. Hann þarf því að vera upplýstur og malbikaður. Á vetrum þarf að moka snjó af honum og sandbera. Þá þarf að setja hvíldarbekki við stíginn með hóflegu millibili.

Stjórn FEB Selfossi er reiðubúin til frekari viðræðna við bæjaryfirvöld og viðkomandi starfsmenn bæjarfélagsins um þetta efni.

Stjórn FEB Selfossi vekur athygli á þessu þarfa lýðheilsumáli og hvetur önnur félagasamtök, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga til að styðja málið og vinna ötullega að framgangi þess.

Nýjar fréttir