4.5 C
Selfoss

Veggjalist FSu komin upp

Vinsælast

Verk úr veggjalistaráfanga Fjölbrautaskóla Suðurlands eru komin upp við Húsasmiðjuna og Blómaval. Verkin voru unnin af 17 nemendum. Efnistök voru frjáls og hvert verk er sjálfstætt enda var ekki komið á hreint í upphafi annar hvar verkin skildu sett upp. Verkin voru unnin í svokallaðri Smiðju í hinu nýja verknámshúsi FSu, Hamri. Þrátt fyrir að vinna innanhúss við kjöraðstæður laus við duttlunga íslensks veðurfars fengu nemendur ekki að nýta sér neina tækni sem krafðist t.d. rafmagns heldur urðu að tileinka sér tækni eins og við verstu hugsanlegu aðstæður utanhúss. Innanhúsaðstæður gerðu nemendum þó kleift að nýta þann munað af fara út í meiri smáatriði í verkum sínum.

Önnin byrjaði á hugmynda- og skissuvinnu. Á meðan smíðuðu trésmíðanemendur og settu upp risatrönur og veggfleti undir styrkri stjórn sinna kennara. Þegar til þess að gera fullmótaðar hugmyndir lágu fyrir var hægt að fara á vegginn sjálfan og studdust þá flestir við svokallaða rúðustækkunartækni til þess að stækka sínar skissur upp í fulla stærð. Nemendur sóttu innblástur víða og stílbrögð voru af margvíslegum toga, allt frá einfaldri snyrtilegri grafík yfir í hrein málverk. Útkoman er þess virði að gera sér ferð og berja herlegheitin augum. Myndlistarkennarar FSu þakka Húsasmiðjunni það tækifæri að hafa verkin á svona sýnilegum stað. Eins þökkum við smíðakennurum fyrir þeirra aðkomu og síðast en ekki síst eiginmönnum okkar fyrir hjálpina við að setja verkin upp á endanlegan stað.

Jólasveinarnir í myndlistadeild FSu óska öllum gleðilegra jóla.

Ágústa Ragnarsdóttir og Elísabet Helga Harðardóttir

Nýjar fréttir