11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Ellefu teknir fyrir að aka of hratt

Ellefu teknir fyrir að aka of hratt

0
Ellefu teknir fyrir að aka of hratt

Í síðustu viku voru einungis ellefu ökumenn á Suðurlandi kærðir fyrir að aka of hratt. Af þeim voru átta erlendir ferðamenn. Skráningarnúmer voru tekin af sex ökutækjum vegna þess að þau reyndust ótryggð í umferðinni. Í einu tilfelli reyndist ökumaður ótryggðs ökutækis ölvaður.

Fjóri ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undiráhrifum áfengis í liðinni viku og er einn þeirra, hlaupari mikill sem reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum um götur Selfoss, grunaður um að hafa einnig verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn. Annar var stöðvaður á bifhjóli á Höfn eftir að lögregla hafði ekið á eftir honum um 4 km leið án þess að hann sinnti stöðvunarmerkjum hennar. Hann reyndist undir áhrifum áfengis og svaraði að auki jákvætt á fíkniefni í þvagsýni sem hann lét í té. Ökumaður fólksbifreiðar sem hann ók á víravegrið í Kömbum þann 6. nóvember sl. er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna. Ekki urðu slys á fólki við áreksturinn en dráttarbifreið þurfti til að flytja ökutækið af vettvangi. Tveir aðrir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum sinum undir áhrifum fíkniefna í vikunni.

Umferðareftirlit lögreglunnar á Suðurlandi hafði afskipti af ökumanni hópbifreiðar á Suðurstrandarvegi. Ökumaðurinn, erlendur, var ekki með ökuréttindi til aksturs hópbifreiða og einnig var ekki til staðar rekstarleyfi til farþegaflutninga. Frekari akstur var því stöðvaður og farþegunum 14 að tölu útvegaður annar farkostur og annar ökumaður til að ljúka ferð sinni.

Þrjátíu og fjórir farþegar rútubifreiðar sluppu að mestu ómeiddir þegar bifreiðin, sem ekið var austur Skaftafellsveg þann 7. nóvember sl., fór yfir þjóðveg 1 og þar fram af kanti. Einn þurfti þó að flytja með sjúkrabifreið af vettvangi vegna áverka á baki en hann mun hafa hrasað eftir að óhappið varð.

Þá slasaðst ökumaður vöruflutningabíls alvarlega þann 6. nóvember sl. þegar bifreið hans lenti út af veginum um Hellisheiði, fór eftir vegöxlinni um tiltölulega langan veg þar sem ökumaðurinn kastaðist út úr stýrishúsi hennar um glugga farþegamegin en eftir það fór bifreiðin aftur þvert upp á veg og festist í víravegriði sem þar skilur akstursstefnur.

Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.