1.7 C
Selfoss

Nýtt slagorð fyrir Árborg og Flóahrepp í ferðaþjónustumálum

Vinsælast

Á fundi bæjarráðs Árborgar sem haldinn var 2. nóvember sl. var lögð fram eftirfarandi tillaga frá starfshópi um ferðaþjónustumál í Árborg og Flóahreppi:

„Starfshópur um ferðaþjónustumál í Árborg og Flóahreppi hefur á sl. ári unnið að stefnumótun sveitarfélaganna í ferðaþjónustumálum í samstarfi við fyrirtækið Kapal ehf. sem sérhæfir sig í markaðsráðgjöf. Hópinn skipa þau Ásta Stefánsdóttir, Eggert Valur Guðmundson og Bragi Bjarnason frá Árborg og Eydís Indriðadóttir, Ingunn Jónsdóttir og Rósa Matthíasdóttir frá Flóahreppi.

Vinnan með Kapli gekk vel og skilaði fyrirtækið af sér stefnumótun ásamt aðgerðalista í lok sumars. Í stefnumótuninni er farið yfir stöðu sveitarfélaganna í dag, styrkleikar, veikleikar, tækifæri og ógnanir greindar og lagðar fram hugmyndir að verkefnum og yfirskrift svæðisins til að auðvelda kynningu fyrir ferðamenn.

Hópurinn hefur farið yfir þau gögn sem Kapall lagði fram í stefnumótuninni og líst vel á þá hugmynd að kynna svæðið undir yfirskriftinni „Selfoss area – stay closer to nature“. Selfossnafnið er þekkt á öllum kortum sem bæjarnafn ásamt því að vera ákveðinn miðpunktur verslunar og þjónustu á Suðurlandi. Einnig kom fram í gögnum Kapals að mögulega yrðu sveitarfélaganöfnin orðin úrelt á næstu árum ef farið yrði í sameiningar og því væri sterkast að velja nafn sem allir þekkja og ætti að standa til framtíðar. Starfshópurinn leggur því til að ný yfirskrift fyrir Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Flóahrepp í kynningarefni fyrir erlenda ferðamenn verði „Selfoss area – stay closer to nature“. Það vísi í lokamarkmiðið sem er að auka þann fjölda ferðamanna sem gistir lengur á svæðinu og er nær náttúruperlunum en t.d. á höfuðborgarsvæðinu.“

Bæjarráð samþykkti að nota yfirskriftina „Selfoss area – stay closer to nature“ í kynningu og markaðssetningu fyrir erlenda ferðamenn. Hópurinn vinnur áfram að markaðssetningu og stuðningi við ferðaþjónustu í öllu sveitarfélaginu.

Nýjar fréttir