-7 C
Selfoss
Home Fréttir Að treysta þjóðinni

Að treysta þjóðinni

0
Að treysta þjóðinni
Njörður Sigurðsson, 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Pólitískur ómöguleiki var hugtak sem núverandi forsætisráðherra bjó til þegar hann treysti sér ekki til að bera ákvörðun um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið undir þjóðina, líklega af ótta við að úrslit kosninganna væru honum ekki að skapi. Í raun má segja að nota megi hugtakið pólitískur ómöguleiki yfir stjórnmálamenn sem treysta ekki þjóðinni.

Stjórnarskráin

Þann 20. október sl. voru liðin fimm ár frá þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Úrslit kosninganna voru að 64,2% þeirra sem greiddu atkvæði vildu að tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá yrðu lögð til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Á þessum fimm árum hefur hins vegar lítið gerst og ekkert frumvarp verið lagt fram um nýja stjórnarskrá. Málið er í raun og veru fast í meðförum þingsins og hafa tvær síðustu ríkisstjórnir ekki beytt sér fyrir því að málið verði leyst. Þannig hefur vilji þjóðarinnar ekki verið virtur.

Beint lýðræði

Í tillögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá er gert ráð fyrir að þjóðin eigi meiri aðkomu að ákvörðunum með því að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þá er að finna í tillögunum ákvæði um að 2% kjósenda geti lagt fram þingmál á Alþingi og 10% kjósenda geti lagt fram frumvarp. Allt eru þetta tillögur um aukna þátttöku almennings í ákvörðunum um stjórn ríkisins, svokallað beint lýðræði. Þannig verði þjóðinni treyst fyrir málum og lyktum þeirra.

Valdið er hjá þjóðinni
Einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna er traust og verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem þeir sækja umboð sitt til. Þannig eiga stjórnmálamenn ekki að óttast afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum, í Evrópumálum né í öðrum málum sem upp munu koma. Valdið er hjá þjóðinni og því á hún fyrst og fremst að ákveða hvaða stefnu skuli taka í stórum málum sem smáum. Hjá Samfylkingunni er ekki að finna hræðslu við að framfylgja vilja þjóðarinnar eða að leita álits hjá henni, þar er því ekki til staðar pólitískur ómöguleiki. Settu því X við Samfylkinguna laugardaginn 28. október næstkomandi.

Njörður Sigurðsson, 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.