2.3 C
Selfoss
Home Fréttir Vegtollar – nei takk!

Vegtollar – nei takk!

0
Vegtollar – nei takk!
Njörður Sigurðsson, 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrr í þessum mánuði sagði Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sjálfstæðisflokks, að eina raunhæfa leiðin til að bæta samgöngur út frá höfuðborgarsvæðinu væri að setja upp tollahlið við borgarmörkin og rukka vegfarendur um vegtolla. Af máli hans mátti skilja að ef ekki væri farin sú leið að rukka vegtolla myndu slíkar framkvæmdir taka um 20–30 ár.

Val um vegtolla
Víða erlendis þar sem komið hefur verið á vegtollum geta vegfarendur valið um aðrar leiðir án vegtolla, oft eru það sveitavegir sem lengri tíma tekur að fara um. Þannig getur fólk valið hvort að það greiði vegtolla og komist þá hraðar yfir og fyrr á áfangastað. Sama á við um eina tollahlið landsins sem er við Hvalfjarðargöng. Vegfarendur geta valið að fara um Hvalfjarðargöng og greitt fyrir það eða keyrt fyrir Hvalfjörð og sleppt vegtollum.

Aukin gjöld á landsbyggðina
Hugmyndir um tollahlið í kringum höfuðborgarsvæðið, á Reykjanesbraut, Suðurlandsveg og Vesturlandsveg, fela ekki í sér slíkt val heldur verður öllum sem erindi eiga inn á höfuðborgarsvæðið að greiða vegtoll. Það þýðir að aukin gjöld verða lögð á þá sem þurfa að fara um þessa vegi. Sérstaklega mun það fela í sér aukna gjaldheimtu fyrir íbúa á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi sem sækja vinnu daglega á höfuðborgarsvæðið og þjónustu oft í mánuði. Ef hugmyndir Jóns Gunnarssonar verða að veruleika mun tiltekinn hluti íbúa landsins þurfa að greiða meira fyrir samgöngur en aðrir. Það er óréttlátt.

Samgöngur sem hluti af grunnþjónustu
Góðar samgöngur eru ein af grunnstoðum samfélagsins. Af því leiðir að samgöngur á að fjármagna eins og hver önnur verkefni ríkisins. Hægt er að fjármagna nauðsynlegar vegbætur án þess að leggja aukagjald á vegfarendur og hefur Samfylkingin kynnt hvernig skuli fjármagna nauðsynlegar umbætur, þar á meðal í samgöngumálum. Þar má nefna aukinn arð af auðlindum landsins, þreskiptan fjármagnstekjuskatt af háum fjármagnstekjum og stóreignaskatt að undanskildu húsnæði.

Samfylkingin hafnar vegtollum í kringum höfuðborgarsvæðið og aukna gjaldtöku af almenningi. Nánari upplýsingar um stefnuna má finna á www.xs.is.

Njörður Sigurðsson, 2. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.