0 C
Selfoss

Tungnaréttir söngsins og gleðinnar

Vinsælast

Blessað sauðféð, göngur og réttir hafa skilað þessari þjóð tilfinningum og rómantík í gegnum aldirnar. Að venju fór ég þetta haustið í Tungnaréttir sem eru í huga þjóðarinnar réttir söngsins og gleðinnar. Að venju var þar fjölmenni, bændur og búalið og fólk alls staðar að. Fallegt var féð heimt úr frelsi fjallanna.

Tungnaréttir eiga sér mikla sögu. Þar stóð bændahöfðinginn Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu og stjórnaði söng, já rödduðum söng bændanna með tilþrifum. Þannig lauk hverjum réttum með söng og gleði og gerir enn. Þá bjó annar höfðingi fyrst í Múla og svo í Skálholti, Jörundur Brynjólfsson, alþingismaður Árnesinga, fjárflestur bænda í Tungunum þá. Menn segja mér að hann hafi staðið í réttardyrum heilsað körlum með handbandi konum með kossi og klappað á kollinn á krökkunum og sagt eitthvað fallegt við þau. Þessa minnist Björn í Úthlíð, Sigurður á Heiði og fleiri. Og svo kallaði Jörundur til sinna manna, og bandaði hendinni inn í réttina, „dragið piltar.“ Ekki undra að Jörundur ætti fylgi enda kvað Eiríkur Einarsson á Hæli um sigra hans þetta: Jafnan sigrar Jörundur/játum vorar nauðir./Hann er fjár- og fjörhundur/en fólkið mestu sauðir./

Stemningin er alltaf mögnuð í Tungnaréttum og þangað eru komnir margir bæði karlar og konur til að taka þátt í réttasöngnum og svo kveður hann Faxi, fossinn fagri í Tungufljótinu sína eilífðar tónhviðu undir jarmi, hneggi, hundgá og hlátri fólksins, en Þorsteinn átti hann Faxa hálfan. Umhverfi Tungnarétta er rómantískt gróður og tré og nú nýuppbyggðar réttir og svo umgjörðin fagra upp til fjallanna. Engar réttir eru jafn tengdar gleðinni og þessar nema ef vera skyldi hinar fornu Skeiða- eða Reykjaréttir með Höskuldi bruggara í Saurbæ sem framleiddi söngvatn niðrí Flóa. Þá var uppi hinn strangi sýslumaður Magnús Torfason sem bannaði réttadansinn og gleðina sem fylgdi þeim réttum. Þrátt fyrir það höfðu komið 18 börn óskilgetin undir eitt haustið í rómatíkinni þar.

„Konungsríki“ söngsins fékk nýjan kórstjóra

Það er gaman að fylgjast með þegar dregur að söngnum í Tungnaréttum. Þar eru mættir synir Þorsteins og dætur og afkomendur í stórum stíl ásamt sveitafólki og gestum sem vilja þenja raddböndin og bíða þess að bresta í söng. Þorsteinn á Vatnsleysu var öllum ógleymanlegur, hár og höfðinglegur, nánast spariklæddur í réttunum með hatt á höfði, eiginlega konungborinn í útliti og minningunni. Hann stjórnaði söngnum með tilþrifum eins og hann væri staddur í óperuhúsi sem auðvitað fjallahringurinn er á þessum stað. Þegar Þorsteinn féll frá tók sonur hans Einar Geir við sem kórstjóri og það gerði hann enn í þetta sinn, glæsimenni í sjón en nokkuð við aldur þótt fáir beri árin betur. Og nú leiddi Einar Geir fram nýjan kórstjóra systurson sinn Þorstein Guðnason sem sýndi takta nafna síns, frægur söngmaður úr Fóstbræðrum enda voru þeir bræður flestir á staðnum og fylgdu Þorsteini og bændaliðinu í söng. Næsta haust má búast við að kórstjórinn hafi kastað flíspeysunni og sparibúist með hattinn á sínum stað eins og afi sinn.

Kynslóðir koma og kynslóðir fara en réttirnar og vonandi sauðkindin verður áfram á sínum stað um aldir þótt á móti blási nú. Þau vandamál hljóta að leysast enda lambakjötið ein besta villibráð heimsins, dásamað kjöt og lostæti. Landsmenn vilja þetta kjöt, erlendir markaðir lofa það og tvær og hálf milljón ferðamanna sem hingað koma vilja smakka afurð landsins. Að selja lambakjötið er því verkefni en ekki vandamál „við étum bara vandann,“ eins og stjórnmálamaðurinn sagði forðum.

Gólfið á Vatnsleysu dunaði af álfahoppi

Ekki er síðra að koma á bæina í Tungunum eftir réttirnar. Þar er kjötsúpa á borðum og manni er líkt farið og Árna Johnsen forðum er hann sagðist hafa borðað kjötsúpu þá á átta bæjum eitt haustið og langaði í kjötsúpu þegar hann vaknaði morguninn eftir. Að þessu sinni kom ég m.a. að Vatnsleysu til Braga og Höllu. Þar var söngsveitin öll og nú spilaði snillingurinn Hilmar Örn Agnarsson undir. Bragi Þorsteinsson er mikill söngmaður og sagt er að minnstakosti tveir uppsveitarmenn hefðu getað valið sér hið stóra svið söngsins hefðu þeir kosið það, hann og Hjalti Gestsson frá Hæli. Stofan á Vatnsleysu var óperuhús þennan dag, Fóstbræður og bændaliðið léku við hvurn sinn fingur. Bragi bóndi hefur ekki sungið í nokkur ár eftir áfall en á miðjum degi brast hann í einsöng og tók uppáhaldssönginn sinn: „Hún amma mín það sagði mér,“og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Þá hóf upp sína yndisfögru söngrödd Björg Þórhallsdóttir eiginkona Hilmars og hún söng „Ave Maria,“ Kaldalóns og söngmennirnir púuðu undir með sínum fögru röddum og lygndu aftur augunum. Þetta var eins og að vera um stund í Himnaríki, allt fékk líf „og gleðin skín af vonar hýrri brá.“ Og dásamlegt var að horfa á fallega drenginn þeirra Höllu og Braga hann Þorstein á málverkinu flotta eftir Baltasar. Þorsteinn brosti til okkar í gegnum tárin og það var eins og hann væri mitt á meðal okkar. Svo sat sjálfur Agnar Guðnason til hliðar við píanóistann son sinn Hilmar Örn, en Agnar opnaði bændum sýn um veröld víða með Bændaferðunum. Agnar söng með Þorsteini á Vatnsleysu forðum þegar Búnaðarþing sprengdi Bændahöllina með söng sínum og frægu álfahoppi og nú dúaði gólfið á Vatnsleysu undan álfahoppinu.

Hafið heila þökk fyrir gleðina Tungna- og Vatnsleysumenn. Gömul tilfinning greip mig: „Allt er nú sem orðið nýtt ærnar, kýr og smalinn.“ Sauðkindinni og bændunum í landinu fylgja tilfinningar og rómantík. Áfram veginn bændur, þjóðin styður ykkur og virðir störf ykkar!

Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra.

Nýjar fréttir