9.5 C
Selfoss

Þekktur sænskur unglingabókahöfundur í Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Sænski unglingabókahöfundurinn Kim M. Kimselius heimsækir Bókasafn Árborgar á Selfossi mánudaginn 4. september nk. kl. 14:30. Í fyrirlestrinum segir hún frá höfundaverki sínu og störfum, spjallar við viðstadda og kynnir nýju bókina sína, Svartadauða, sem kemur út á íslensku um þessar mundir.

Kim Kimselius er í hópi vinsælustu og afkastamestu barna- og unglingabókahöfunda í Svíþjóð og sumar bækur hennar hafa verið þýddar á mörg tungumál, þar á meðal sex á íslensku: Aftur til Pompei, Ég er ekki norn, Bölvun faraós, Fallöxin, Töfrasverðið og loks Svartidauði sem einmitt kemur út í þessari viku.

Urður bókafélag á Hellu hefur gefið bækurnar út. Þær eru allar um ævintýri og tímaflakk unglinganna Ramónu og Theós og vina þeirra, ævintýrabækur sem byggja á raunverulegum atburðum í sögunni og eru í senn spennandi og mjög fróðlegar aflestrar.

Í hverri bók er sérstakur staðreyndakafli sem auðveldar lesendum að átta sig á ýmsum þáttum efnisins og að setja það í sögulegt samhengi. Margar þessara bóka hafa verið notaðar sem ítarefni í sögukennslu í sænskum skólum og þótt þær teljist almennt til unglingabóka höfða þær einnig til eldri lesenda – njóta vinsælda meðal unglinga á öllum aldri.

Kim er ötull og vinsæll fyrirlesari, ferðast víða og hefur haldið námskeið og skrifað bækur um ritlist og ritsmíðar. Allir eru velkomnir á viðburðinn.

Nýjar fréttir