8.4 C
Selfoss

Elísabet og Birgir sigruðu í 100 km Hengil Ultra hlaupinu

Vinsælast

Elísabet Margeirsdóttir og Birgir Sævarsson sigruðu Hengil Ultra Trail 100 km hlaupið í gær. Þau komu í mark eftir 100 km á 16 klukkutímum og 42 mínútum. Mikil þoka var á fjallinu í fyrri nótt og nokkur vindur á tímabili og sóttist hlaupið hægt þess vegna. Sjö luku keppni í það heila í 100 km brautinni og kom sá síðasti inn á tæppum 20 klukkutímum.

Þau Elísbet og Birgir voru glöð og við góða heilsu miðað við þrekvirkið og slógu á létta strengi á marklínuna eins og myndin sýnir. Það voru svo Ítalarnir Matteo Meucci og Davide Cecchi svo komu í mark í öðru og þriðja sæti en Elísabet var eina konan sem hljóp 100 km í ár. Sigrinum í 100 km fylgir nafnbótin „Konungur og drottning eldfjallsins“ sem þau bera nú fram að næstu keppni. 

Til marks um erfiðleikastuðul 100 km hlaupsins þá hættu þrír keppendur keppni eftir að hlaupið var ræst, tveir keppendur eftir rúmlega 20 kílómetra og sá þriðji eftir að hafa hlaupið meira en 55 kílómetra. Skrifast það á slæm veðurskilyrði og erfitt skyggni en keppendur voru ræstir á miðnætti aðfaranótt laugardags þannig að í ofan á lag bættist svo myrkrið við fyrstu rúmlega fimm klukkutímana af keppninni. Keppnin er erfiðasta og lengsta utanvegahlaupakeppni landsins og alls ekki fyrir aðra en þaulvana hlaupara.  

Í 50 km hlaupinu sigruðu þau Sigurjón Ernir Sturluson og Eva Ólafsdóttir, Sigurjón á tímanum 5:33:51 klst. og Eva á 7:37:57 klst.

Ingvar Hjartarson var á tímanum 1:47:32 og Andrea Kolbeinsdóttir á tímanum 1:56:56 en þau sigðruðu 24 km hlaupið í Hengil Ultra. Rúmlega 100 manns voru skráðir í þá vegalengd. 

Keppendur komu alls staðar að úr heimunum til að keppa í Hengil Ultra Trail. Keppendur frá Ítalíu, Austurríki, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Ástralíu voru á meðal keppenda sem komust á pall í ýmsum aldurshópum og vegalengdum. 
 
Mótið var ræst í Listigarðinum í Hveragerði. Þaðan var hlaupið upp Reykjadalinn og alveg upp á og yfir Hengilinn í lengstu vegalengdunum. Mótstjórn var í hátíðarsal Skyrgerðarinnar. 

Alþjóðlegir UTMB punktar 
Þátttaka í 24, 50 og 100 km vegalengdunum í Hengill Ultra tryggir keppendum þátttökupunkta í hinum heimsfrægu Mont Blanc hlaupum. Fjöldi hlaupara kom erlendis frá og tók þátt í Hengill Ultra því slík punktagjöf býðst ekki hvar sem er í heiminum. Hengill Ultra, Esjuhlaup og Laugavegshlaup ÍBR eru einu hlaupin á Íslandi sem státa af slíku samstarfi við þessa vinsælu keppni í Sviss.

Markmið skipuleggjenda er að gera Hengill Ultra að skemmtilegasta utanvega hlaupi landsins með metnaðarfulla umgjörð fyrir keppendur og aðstandendur. Á næstu fimm árum ætla aðstandendur mótsins að gera það að þekktri stærð í hlaupasamfélögum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kanada.

Nýjar fréttir