6.7 C
Selfoss

Umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 veitt

Vinsælast

Umhverfisverðlaun Ölfuss voru veitt 12. ágúst síðastliðinn á bæjarhátíðinni Hafnardögum.

Í dreifbýli Ölfuss voru það Björn Kjartansson og Sigríður Jónsdóttir sem hlutu verðlaunin fyrir garð sinn að Grásteini III. Um garðinn er sagt: „Fallegur garður sem tengist á skemmtilegan hátt við náttúrulegt umhverfið í kring. Framgarðurinn er með steinhleðslu sem tengist við náttúrulegt hraun við baklóðina og þar tekur við myndarlegt beð með fjölbreyttum trjám og runnum. Í bakgarðinum er fallegt garðhús sem eykur á notagildi garðsins. Garðurinn er í stöðugri uppbyggingu og eru eigendur hans duglegir í að ala upp plöntur til frekari útplöntunar og þar með skjólmyndunar. Garðurinn er vel hirtur og eigendum til sóma.“

Í Þorlákshöfn voru það Lovísa Sigurðardóttir og Þorsteinn Guðnason sem hlutu verðlaunin fyrir garð sinn að Knarrarbergi 3. Um garðinn er sagt: „Fallegur og snyrtilegur garður þar sem bæði er hugað að notagildi sem og fagurfræði. Framan við húsið er gróður lágvaxinn og býður mann velkomin en í baklóð eru há tré sem mynda umgjörð um pallinn og skapa gott næði. Garðurinn skiptist í fleiri en eitt rými sem tengjast saman og mynda gott flæði um garðinn. Í garðinum eru eldri tré í bland við nýgróðursett og þess gætt að garðurinn sé í stöðugri endurnýjun. Garðurinn er mjög vel hirtur og greinilega nostrað við hverja plöntu.“

Verðlaunagripina hannaði glerlistakonan Dagný Magnúsdóttir hjá Hendur í Höfn.

Nýjar fréttir