5.4 C
Selfoss

Framkvæmdum við Austurveg á Selfossi miðar vel

Vinsælast

Framkvæmdum við byggingu íbúða að Austurvegi 39–41 á Selfossi hefur miðað vel í blíðviðrinu sem leikið hefur við Sunnlendinga undanfarið. Búið er að steypa upp kjallara og plötu neðstu hæðar í fyrsta húsinu af þremur sem rísa munu á lóðinni. Í þessum fyrri áfanga framkvæmdanna er um að ræða þriggja hæða hús með 12 íbúðum ásamt geymslum í kjallara. Áætlað er að lokið verði við að steypa húsið upp um næstu áramót og að íbúðir verði afhentar næsta sumar. Íbúðirnar eru allar þriggja herbergja, frá 89,9 til 99,0 fermetra ásamt geymslum sem flestar eru 10–13 fermetrar að stærð.

Í seinni áfanga verða tvö hús, níu íbúðir í þriggja hæða húsi og sextán íbúðir í fjögurra hæða húsi, sem tengjast niðurgröfnum bílakjallara með stæðum fyrir 20 bíla. Áætlað er að framkvæmdir við seinni áfangann hefjist í vetur. Allar íbúðir húsanna eru fyrir 50 ára og eldri.

Verkefnið er unnið á vegum Fagradals ehf. sem er í eigu Pálma Pálssonar og Friðberts Friðbertssonar. Pálmatré ehf, sem er í eigu Pálma Pálssonar og Hildigunnar Skúladóttur, sér um byggingaframkvæmdina.

Nýjar fréttir