0.4 C
Selfoss
Home Fréttir Frí námsgögn fyrir grunnskólanemendur í Árborg

Frí námsgögn fyrir grunnskólanemendur í Árborg

0
Frí námsgögn fyrir grunnskólanemendur í Árborg
Barnaskóli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Mynd: ÖG.

Tillaga um frí námsgögn fyrir grunnskólanemendur var samþykkt samhljóða í bæjarráði Árborgar 3. ágúst sl. Arna Ír Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúi S-lista, lagði tillöguna fram en hún er eftirfarandi:

„Undirrituð leggur til að frá og með haustinu 2017 fái grunnskólanemendur í Svf. Árborg öll nauðsynleg námsgögn án endurgjalds og að kostnaði vegna tillögunnar verði vísað til viðauka við fjárhagsáætlun.“

Í greinargerð með tillögunni sagði Arna Ír að í skólabyrjun sé grunnskólabörnum afhentur innkaupalisti með nauðsynlegum námsgögnum sem þurfi að útvega áður en skólaganga hefst. Hún segir að það sé skoðun sín að skólaganga barna eigi að öllu leyti að vera án kostnaðar fyrir foreldra. Það að skólinn sjái um að útvega öll námsgögn jafni aðstöðumun barnanna, minnki sóun og minnki truflun sem verður í kennslu þegar nemendur eru ekki með nauðsynleg námsgögn. Kostnaður vegna námsgagnanna hefur áður verið tekinn saman af fræðslustjóra þar sem Arna Ír hefur tvisvar áður flutt sams konar tillögu.

Tillagan var samþykkt samhljóða og fól bæjarráð jafnframt fræðslustjóra að vinna að verkefninu í samráði við skólastjóra grunnskólanna í sveitarfélaginu. Arna Ír lagði fram eftirfarandi bókun: „Það er sérstakt fagnaðarefni að bæjarráð skuli samþykkja tillögu undirritaðrar um að grunnskólanemendur í Svf. Árborg skuli fái frí námsgögn frá nk. hausti nú þegar ég flyt tillöguna í 3. skipti á þessu kjörtímabili. Þetta er ákaflega jákvætt skref og mikilvægt til þess að tryggja jöfnuð meðal nemenda auk þess sem þetta minnkar sóun.