-1.1 C
Selfoss

Skeiða- og Gnúpverjahreppur gerir öll fylgiskjöl mála á sveitarstjórnarfundum aðgengileg

Vinsælast

Frá og með mars síðastliðnum hafa fylgigögn vegna þeirra mála sem tekin eru fyrir á fundum sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps verið öllum aðgengileg á vef sveitarfélagsins www.skeidgnup.is Á það við um allt efni sem lagt er upp fyrir fundina, að undanskyldum trúnaðarmálum ef um þau er að ræða og ef um er að ræða skýrslur sem eingöngu eru gefnar út á pappírsformi, en það heyrir til undantekninga ef gögn eru ekki á tölvutæku formi. Gögnin eru staðsett neðan við hverja fundargerð á vefnum. Auk þess eru sett þar inn skjöl vegna mála til kynningar. Gögnin eru sett inn á vefinn í beinu framhaldi af því að fundargerðin er sett þar inn. Gengið er frá fundargerðum strax í lok hvers fundar.

„Við hér á skrifstofu hreppsins verðum vör við að mjög margir íbúar sveitarfélagsins, sem og margir búsettir utan þess, vilja fylgjast með gangi mála hjá sveitarstjórn og almennri vegferð þess sem hér er verið að fást við, það ber að fanga því,“ segir Kristófer Tómasson sveitarstjóri í samtali við Dagskrána. „Ennfremur er talsvert stór hópur sem þarf af gagnlegum ástæðum að vera vel upplýstur um það sem snýr að stjórnsýslu. Bæði hér í þessu sveitarfélagi sem og á öðrum stöðum, svo sem ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir. Það er von mín og sveitarstjórnarinnar að með þessari nýbreytni sé verið að koma enn betur til móts við þann hóp sem hefur þörf fyrir og áhuga á að fylgjast með því sem hér er að gerast af hálfu sveitarfélagsins. Það hefur staðið til um nokkurt skeið að taka upp þessa breytingu, en tæknilegir annmarkar töfðu það. Sveitarstjórnarfundir í sveitarfélaginu hafa til þessa verið haldnir einu sinni í mánuði, yfirleitt fyrsta miðvikudag kl. 14:00. Frá og með ágústmánuði verða haldnir tveir fundir í mánuði. Verða þeir fyrsta og þriðja miðvikudag kl. 14:00.“ Að sögn Kristófers kemur það til vegna þess að málum til umfjöllunar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin misseri. Það hefur gert að verkum að fundirnir hafa orðið oft á tíðum ansi langir.

Nýjar fréttir