7.8 C
Selfoss

Skátar fluttir í fjöldahjálparstöð í Hveragerði vegna sýkingar

Vinsælast

Alvarleg veikindi komu upp í sumarbúðum Skáta á Úlfljótsvatni og var kallað eftir aðstoð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á níunda tímanum í gærkveldi. Læknir og sjúkraflutningalið frá HSU var sent á vettvang á Úlfljótsvatni til að kanna aðstæður strax í gærkveldi, en þar dvöldu um 175 manns, að mestu leyti börn og ungmenni á aldrinum 10–25 ára, sem eru erlendir gestir hérlendis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Á miðnætti kom í ljós að um ríflega 55 börn í hópnum eru með magakveisu. Ákveðið var í samráði viðbragðsaðila á Suðurlandi að opna fjöldahjálparstöð vegna sýkingarinnar. Viðbragðsstjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) var virkjuð og aðstoðar björgunarsveita óskað. Rauði kross Íslands opnaði síðan fjöldarhjálparstöð í húsnæði Grunnskólans í Hvergerði.

Allir 175 einstaklingarnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni voru fluttir til dvalar á fjöldahjálparstöðina meðan eðli og uppruni sýkingarinnar var greindur.  Skólahúsnæðinu þar sem hjálpastöðin er staðsett var skipt í tvö aðskilin svæði fyrir þá sem eru sýktir og veikir og fyrir þá sem eru ekki veikir eða einkennalausir. Hjúkrunarfræðingar og læknar af bráðamóttöku HSU á Selfossi voru kallaðir út og aukið viðbragð var einnig hjá sjúkraflutningamönnum og bráðaliðum HSU á Selfossi.

Viðbragðsstjórn sendi vakthafandi lækni og sex heilbrigðisstarfsmenn til að greina og veita hinum veiku meðferð með lyfjum og vökvagjöf í æð. Í tilkynningu frá HSU segir að fjöldi veikra fari vaxandi og þörf sé á að kalla út allt tiltækt varalið heilbrigðisstarfsmanna hjá HSU. Allt kapp er lagt á að hlúa að öllum sem veikjast og greina alvarleika veikinda til að veita viðeigandi meðferð strax.

Uppruni veikindanna er enn ókunnur en sýni hafa verið tekin og send til rannsóknar. Framkvæmdastjórn HSU metur ástandið á hverjum tíma og kallar út nauðsynlegan liðsauka vegna hinna veiku og verða allir alvarlega veikir sjúklingar fluttir til einangrunar og meðferðar á sjúkrahúsi ef þörf krefur.

Á mbl.is kemur fram að ákvörðun hafi verið tekin um að loka Úlfljóts­vatni fram yfir helgi vegna maga­k­veisunnar sem kom upp hjá er­lend­um skát­um sem þar höfðust við. Fram kem­ur í frétta­til­kynn­ingu að heil­brigðis­eft­ir­litið vinni að því að taka sýni og gera út­tekt á staðnum.

Uppfært:

Sýking af völdum nóró veiru í rénun.
Staðfest er að sýking sem kom upp meðal gesta á Úlfljótsvatni í gær er hefðbundin magapest af ætt nóróveira. Vinna í fjöldahjálparstöð sem komið var á í Grunnskólanum í Hveragerði hefur gengið vel og virðist sýkingin nú í rénun. Sex eru veikir nú þegar þetta er ritað (kl. 16:44). Byrjað er að útskrifa þá sem ekki hafa veikst og mun Skátahreyfingin, í samráði við Rauða kross Íslands, aðstoða þau við að koma sér fyrir en aðstaða að Úlfljótsvatni er enn lokuð. Undirbúningur að þrifum og sótthreinsun fjöldahjálparstöðvarinnar í Grunnskólanum er hafinn og standa vonir til þess að röskun á starfi kennara Grunnskóla Hveragerðis verði sem minnst en til stendur að þeir hefji undirbúning að vetrarstarfi sínu, á komandi vetri, á mánudag.

Enda þó verkefninu sé ekki lokið er tilefni til þess að hrósa þeim sem að máli þessu komu fyrir fagleg viðbrögð enda verður árangurinn alltaf eftir því sem í er lagt.

(Af vef lögreglunnar).

Nýjar fréttir