8.4 C
Selfoss

Ég sæki í höfunda sem bjarga mér frá sjálfri mér

Vinsælast

Björg Kvaran,lestrarhestur Dagskrárinnar, fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1968. Hún hefur verið búsett hérlendis og erlendis og unnið ýmis störf svo sem við fiskvinnslu, blaðburð, meindýraeyðingu, verslun og kennslu. Er gift þriggja barna móðir sem heldur þrjá ketti, starfandi leikskólakennari sem í frítíma sínum ræktar mosa í bakgarðinum og dreymir um að verða fjallgöngugarpur þegar hún verður stór.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna er ég að lesa Söngva Satans eftir Salman Rushdie. Ég las hana aldrei þegar hún kom út en fannst svo merkilegt að ennþá væri verið að banna fólki að skrifa og lesa bækur og þess vegna er ég þeirrar skoðunar að sem flestir lesi bókina. Er fyrst að koma því í verk núna.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Ég vil alltaf hafa bækur við höndina en get bara lesið eina í einu en ekki gripið niður í margar. Í gegnum tíðina hef ég svo vanið mig á ýmsar slæmar lestrarvenjur. Til dæmis finnst mér mjög gott að skríða upp í rúm eða sófa og maula eitthvað á meðan ég les. Mér finnst líka notalegt að lesa utandyra í góðu veðri og hef oft sólbrunnið. Svo finnst mér einstaklega gaman að lesa ofan í fjöru eða inni í skógi. Ég get lesið hratt og les vel upphátt en ljóð get ég alls ekki lesið upphátt því ég næ ekki að halda ró minni og er yfirleitt farin að gráta með ekkasogum í miðju ljóði. Ljóðin þurfa ekki að vera sorgleg, bara vel skrifuð. Þetta þykir fólki að sjálfsögðu grenjandi fyndið.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Vel skrifaðar skáldsögur og ljóðrænar bækur höfða mest til mín. Ég hef líka gaman af ferðabókum og frásögnum, myndasögum og ljóðabókum. Ég sæki í höfunda sem bjarga mér frá sjálfri mér. Sumir tímabundið og aðrir skilja eftir aukinn skilning og væntumþykju í minn garð og annara. Til dæmis er ég mjög hrifin af öllu sem Jón Kalman Stefánsson skrifar. Vilborg Davíðsdóttir er líka uppáhalds, Vigdís Grímsdóttir, Gerald Durell, Earnest Hemingway, J.R.R. Tolkien, René Coscinny og Albert Uderzo, Jón úr Vör, Tómas Guðmundsson, Anne Lamott, Fredrick Backman, Marina Lewycka og fleiri og fleiri.

Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Æ, þær eru svo agalega margar. Sveitin heillar eftir Enid Blyton var uppáhaldsbókin mín sem barn. Ég var líka hrifin af öðrum bókum eftir hana. Kannski af því að það var alltaf verið að tala um mat. Sögupersónurnar höfðu gjarnan með sér nesti á vit ævintýranna, smurt brauð, drykk í flösku, kökur og flesk. Hver vill ekki lesa um flesk í nesti? Ritsafnið Geislar eftir Sigurbjörn Sveinsson á heiðurssess í bókahillunni minni því þessar bækur vann ég mér inn hjá pabba mínum sem sagði að ég mætti eiga þær ef ég læsi þær báðar. Þetta eru fallega innbundnar bækur í lungamjúku skinni með gyllingu á kili, innihalda meðal annars sögurnar Dvergurinn í sykurhúsinu og Glókoll. Ég var mjög ung þegar ég las þær. Sögurnar um Pipp músastrák eftir Sid Roland þóttu mér líka skemmtilegar líklega af því að ég hef frá upphafi heillast af óþægum strákum. Las til dæmis Kapítólu eftir Southworth spjaldanna á milli þegar ég var unglingur. Langafi prakkari eftir Sigrúnu Eldjárn er snilldarlestur og Selur kemur í heimsókn eftir Gene Deitch og Vratislav Hlavatý og bækurnar um Brand eftir Sven Nordqvist eru yndislegar. Múmínálfabækurnar og þá sérstaklega Pípuhattur galdrakarlsins og Örlaganóttin voru og eru uppáhalds og svo auðvitað Harry Potter bækurnar allar. Þetta eru náttúrulega fullorðinsbækur fyrir börn eða barnabækur fyrir fullorðna. Tove Jansson og J. K. Rawling skrifa svo fallega um kærleika og mannlegan breyskleika. Svo þykir mér einstaklega vænt um þær bækur sem voru í uppáhaldi hjá börnunum mínum sem eru auðvitað ótal margar en ég get nefnt meðal annara Lítil prinsessa eftir Frances Hodgson Burnett, Ávítarabækurnar eftir Lene Kaaberböl og Where the wild things are eftir Maurice Sendak.

Hefur einhver bók haft sérstaklega mikil áhrif á þig?
Bókaþjófurinn eftir Markus Zusak. Þetta er saga sem gerist í seinni heimstyrjöldinni og aðalsöguhetjurnar eru stelpa og dauðinn sjálfur. Þetta er saga um ást, ást á fólki, frelsi og hinu ritaða máli. Ég er bara farin að kreppa hnefana við það eitt að minnast þessarar bókar.

Lestu öðruvísi bækur á sumrin en veturna?
Á veturna les ég allt nema hryllingssögur. Ég er nánast hætt að lesa ljótar sögur þó ég hafi gert það á yngri árum. Á sumrin sæki ég í að lesa léttmeti, einhverjar skemmtilegar sögur sem líkast til enda vel og gerast helst í góðu veðri. Þarf einmitt að drífa mig á bókasafnið núna.

Nýjar fréttir