1.1 C
Selfoss

Einfalt að flokka í bláu tunnuna

Vinsælast

Samningur sveitarfélagsins Árborgar um sorphirðu gilti til loka júnímánaðar sl. og við undirbúning að nýju útboði á sorphirðu var ákveðið að auka möguleika íbúa til að flokka sorp heima fyrir. Þetta kemur fram í svari Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, þegar hun var spurð í hverju nýja flokkunin fælist. „Við höfðum verið að skoða ýmsar leiðir og skynjað sífellt meiri áhuga hjá íbúum á að geta flokkað meira, sérstaklega að taka plastið frá. Við ákváðum að fara leið sem Kópavogsbær hefur verið að prufa síðustu mánuði, s.s. að setja fleiri flokka sorps í bláu tunnuna sem þegar er til staðar við hvert heimili í Árborg. Samhliða því verður sú tunna losuð á þriggja vikna fresti í stað fjögurra vikna áður, en gráa tunnan er enn losuð á tveggja vikna fresti. Sorphirðudagatal er komið inn á heimasíðu Árborgar og þar er hægt að sjá hvenær tunnur eru losaðar eftir hverfum.“

En hvernig fer fólk að við flokkunina?

„Þetta er frekar einfalt. Í bláu tunnuna má setja pappa (t.d. bylgjupappa), pappír (s.s. dagblöð), málma (s.s. niðursuðudósir) og plast (poka, dósir o.fl.). Það gildir hið sama um allar matvælaumbúðir að það þarf að skola þær og hreinsa matarleifar úr þeim, eins og fólk er vant að gera með mjólkurfernurnar. Þetta skiptir máli til þess að það fáist viðunandi verð fyrir efnin í endurvinnslu. Einnig er gott að pressa umbúðir saman þannig að þær taki minna pláss, bæði til þess að tunnan fyllist ekki eins fljótt og til þess að spara flutningskostnað. Það þarf ekki að safna mismunandi flokkum í sér plastpoka og setja svo í tunnuna, þetta má allt fara í lausu. Starfsmenn Íslenska gámafélagsins sem annast sorphirðuna munu heimsækja íbúa í ágúst og leiðbeina nánar, en það mega allir byrja að flokka strax. Það verða einnig gefnar út leiðbeiningar sem verður hægt að nálgast á netinu.“

Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir íbúa og sveitarfélagið sjálft?

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að minnka það magn sorps sem fer til urðunar og endurvinna og endurnýta það sem hægt er. Rannsóknir sýna að besti árangur næst ef flokkun fer fram nærri þeim stað þar sem sorpið fellur til, s.s. við heimili fólks. Við vonum að íbúar taki þessari nýbreytni vel og verði duglegir að flokka.

Nýjar fréttir