2.3 C
Selfoss

Jónsmessuhátíð og aðalfundur í Hveragerði í dag

Vinsælast

Jónsmessuhátíð Norræna félagsins í Hveragerði verður haldin í sjöunda sinn í dag laugardaginn 24. júní í lystigarðinum á Fossflöt í Hveragerði. Hátíðin stendur frá kl. 13 til 17 en hún fellur inn í dagskrá Landsmóts UMFÍ 50+ UMFÍ sem haldið er í Hveragerði um helgina. Allir sem vilja geta tekið þátt í Jónsmessuhátíðinni með því að skreyta og reisa miðsumarstöng að sænskum sið.

Kl. 13.30 munu Arnar Gísli Sæmundsson og Margrét Stefánsdóttir skemmta gestum með lifandi tónlist. Fríar veitingar verða í boði frá styrktaraðila, piparkökur með Camembert, eldbrauð og eldpopp. Sjálfboðaliðar á hátíðinni klæðast bolum með mynd eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, nemanda í Grunnskólanum í Hveragerði.

Kl. 14–15 verður „Bókaflipp“ haldið í fyrsta sinn, en það er íþróttakeppni sem ætti að vera hægt að taka bókstaflega. Ekki láta þetta samstarfsverkefni Bókabæjanna austanfjalls, Listvinafélagsins í Hveragerði og Norræna félagsins í Hveragerði framhjá ykkur fara.

Kl. 17.30 verður aðalfundur Norræna félagsins í Hveragerði haldinn í brekkunni við eldstæðið.

Stjórn Norræna félagsins í Hveragerði vonast til að sem flestir kíki í garðinn á laugardaginn.

Nýjar fréttir