1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, vottaðar námsbrautir

Raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, vottaðar námsbrautir

0
Raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf, vottaðar námsbrautir
Thelma Karen Ottósdóttir.

Eitt af fjölmörgum verkefnum símenntunarmiðstöðva um land allt er að liðsinna fólki sem hefur stutta formlega skólagöngu og bjóða upp á ýmis námstilboð, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimat. Námstilboðin eru af ýmsum toga og margar leiðir færar til þess að efla sig og styrkja og vera virkur í símenntun. Orðið símenntun felur í sér að menntun sé ferli sem ljúki ekki á einhverjum tímapunkti heldur sé virkt allt lífið.

Ein af fjölmörgum námsbrautum sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) hefur þróað fyrir fullorðið fólk og símenntunarmiðstöðvarnar kenna eru Menntastoðir. Námið er ætlað þeim sem stefna á nám við undirbúningsdeildir háskóla eða vilja efla færni sína í almennum bóklegum greinum.

Fimmtudaginn 1. júní útskrifast í annað sinn hópur frá Fræðslunetinu úr Menntastoðum. Námið hófst í byrjun september og að þessu sinni var Fræðslunetið í samstarfi við Visku, fræðslu- og símenntunarmiðstöðina í Vestmannaeyjum. Leiðbeinendur miðluðu kennslunni því ýmist frá Selfossi eða úr Eyjum og var samskiptaforritið Skype for Business nýtt við kennsluna. Einnig var sú nýbreytni tekin upp í haust að sumar námsgreinar í Menntastoðum voru kenndar með spegluðum kennsluháttum (vendinám). Þá eru kennslustundir hugsaðar sem verkefnatímar en áður hefur leiðbeinandinn tekið upp stutt myndbönd um afmarkað efni fyrir kennslustundina og námsmönnum gefst kostur á að hlusta á efnið þegar þeim hentar og rifja upp aftur og aftur.

Einn af þeim námsmönnum sem útskrifast frá Fræðslunetinu úr Menntastoðum er Thelma Karen Ottósdóttir. Thelma Karen er 25 ára heimavinnandi 2ja barna móðir. Fyrir ári síðan kom hún í viðtal til náms- og starfsráðgjafa til þess að skoða hvaða leiðir væru færar fyrir hana í náms- og starfsþróun. Í framhaldinu ákvað hún að innrita sig í Menntastoðir.

Hvað varð til þess að þú valdir þetta nám?
Ég frétti af þessu námi hjá einstaklingi sem ég þekki ágætlega. Síðan fór ég sjálf að skoða hvaða leiðir væru í boði fyrir mig og hitti í kjölfarið náms- og starfsráðgjafa hjá Fræðslunetinu.

Hvernig tilfinning var það að setjast aftur á skólabekk?
Það var mikil tilhlökkun og ég var einnig afskaplega spennt fyrir komandi mánuðum og nýrri reynslu. Það voru því blendnar tilfinningar en þó allar mjög jákvæðar.

Hvað hefur komið þér á óvart varðandi námið?
Ég sjálf hef komið mér á óvart. Nám er vinna og þetta var krefjandi en með góðri skipulagningu, miklum sjálfsaga og jákvæðu hugarfari þá kemstu ansi langt.

Hvernig fannst þér ganga að tileinka þér vendinám?
Mér fannst vendinámið mjög gott. Það reyndi á sjálfsaga en það var mikilvægt að vera búin að undirbúa sig fyrir tímana áður en þú hittir leiðbeinandann.

Hvert hefur verið þitt mottó í náminu?
Ég hef aldrei á ævinni lært neitt af nokkrum manni sem var mér sammála“ (Dudley Field Malone). Þetta spakmæli á við um svo margt í lífinu og hefur ávallt verið á bakvið eyrað mitt en það kom sér líka vel í náminu þar sem við nemendurnir vorum mikið að aðstoða og leiðbeina hverjir öðrum. Frábær hópur.

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framhaldinu?
Í áframhaldandi nám að sjálfsögðu. Næsta skref er Háskólabrú Keilis.

Áttu einhver ráð til þeirra sem eru að hugsa um að taka skrefið og hefja nám að nýju?
Ég sjálf hafði ekki lokið neinum áföngum í framhaldsskóla og vissi ekki hvað var í boði fyrir mig. Það er því mikilvægt að kanna hvaða leiðir eru mögulegar. Síðan er gott að skipuleggja sig en þó ekki þannig að þú getir ekki breytt eða gert nýjar áætlanir. Það er því hinn gullni meðalvegur sem skiptir máli.

Nú stendur yfir innritun í nám hjá Fræðslunetinu og m.a. verður boðið upp á nám í Menntastoðum næsta vetur. Námið verður fjarkennt um allt Suðurland.