7.8 C
Selfoss

Boðið upp á eldbakaðar pizzur og sérbruggaðan bjór

Vinsælast

Allt gert klárt fyrir opnun.

Ölverk pizza & brugghús opnaði í Hveragerði síðastliðinn laugardag. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið góðar hjá Hvergerðingum og nærsveitungum því allt hráefni kláraðist svo loka varð staðnum kl. 19 á opnunardaginn. Veitingastaðurinn er staðsettur við Breiðumörk 2 þar sem Hoflandsetrið var áður til húsa. Í Ölverk verður boðið upp á eldbakaðar pizzur og sérbruggaðan bjór.

Pizzurnar eru bakaðar í ítölskum eldofni sem var fluttur sérstaklega til landsins frá Ítalíu. Matseðillinn er stuttur og laggóður og breytilegur eftir árstíðum. Enn er unnið að uppsetningu brugghússins en stefnt er að því að það opni um mitt sumar. Eigendur staðarins eru þau Magnús Már Kristinsson, Laufey Sif Lárusdóttir, Elvar Þrastarson og Ragnar Traustason.

Girnileg pizza hjá Ölverki í Hveragerði.

„Við erum með ítalskan eldofn sem er með því flottasta sem gerist. Hann verður í miðju rýminu og hægt að horfa inn í eldinn þegar pizzurnar bakast. Matseðlinn er ekki stór í sniðum en samsetningarnar á pizzunum eiga eftir að taka bragðlauka viðskiptavina okkar í rússíbana, því margt mjög spennandi er í boði.“ segir Magnús Már.

Að sögn Magnúsar Más getur fólk komið og borðað á staðnum en einnig bjóða þau upp á take-away þjónustu. Þau stefna að því að um mitt sumar verið sérbruggaðir bjórar byrjaðir að renna úr krönum Ölverks en þangað til verður boðið upp á sérvalinn bjór í hæsta gæðaflokki frá íslenskum og erlendum brugghúsum. Bruggmeistari staðarins er Elvar Þrastarson sem hefur verið að gera það gott í íslensku bjórsenununni síðustu ár.

„Við flytjum inn að utan lítið brugghúsið, sem verður með þeim minni hér á landi, eða um 300 lítra. Við verðum með átta gerjunartanka og er markmiðið að hér sé alltaf nýr og ferskur bjór í boð. Sérstaðan við okkar brugghús verður sú að við munum nýta jarðgufuna, sem liggur hér undir Hveragerði, við framleiðslu á bjórnum og verður þetta fyrsta brugghúsið í Evrópu sem notast við þessa framleiðslutækni. Þetta verður bjór sem aldrei hefur komist í tæri við súrefni. Pale Ale og IPA ásamt Lager – allt að vinsælast í dag en þar skiptir einmitt ferskleikinn máli. Hann er númer eitt, tvö og þrjú.”

Hjá Ölverki Pizza & Brugghúsi verða 90 sæti í heildina en staðurinn verður tvískiptur. Fremri hluti staðarins rúmar um 45 manns og er annar eins sætafjöldi í aftari hluta staðarins en þar er mögulegt að taka á móti stærri hópum og með haustinu verður boðið upp á bjórkynningar og ýmislegt fleira spennandi.

Nýjar fréttir