1.7 C
Selfoss

Borg í sveit á laugardaginn

Vinsælast

Borg í sveit – alvöru sveitadagur, verður haldinn í Grímsnes- og Grafningshreppi í þriðja skipti á morgun laugardaginn 27. maí. Þá munu munu bændur, fyrirtæki og einstaklingar í sveitarfélaginu taka höndum saman og hafa opið hjá sér og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Fjölbreytt dagskrá verður við Félagsheimilið Borg kl. 11–16 þar sem ýmislegt skemmtilegt verður í boði. Jötun vélar verða með fjórhjól, sláttutraktora og fleira, Tæki og tól verða með vélar til sýnis og kynningu á starfsemi sinni og feðgarnir Guðmundur og Jóhannes hjá Feðgaverki verða með ýmis tæki á svæðinu, m.a. nýjan trjákurlara. Einnig mun Hjálparsveitin Tintron sýna tæki sín. Sumarhúsið og garðurinn verða með kynningu og plöntusýningu. Einnig verður Þóranna með handunnin blómaker til sýnis og sölu. Nýsköpunarfyrirtækið Pure natura verður með kynningar og sölu á vítamínum og bætiefnum unnin úr íslensku hráefni. Kerhólsskóli verður með kynningu á skólastarfinu og sýningu á verkum nemenda, Unglingastig skólans verður einnig með kökubasar. Sveitarfélagið býður svo öllum frítt í sund þennan dag.

Eyþór Ingi verður með tónleika í Félagsheimilinu Borg kl. 21:00. Hundasýning verður á grasflötinni við sundlaugina á Borg kl. 11:30, 13:30 og 15:30. Víkingar frá Víkingafélagi Suðurlands verða við Hótel Borealis á Efri Brú kl. 11–15. Þar verða smiðjur og sýnt ýmislegt handverk. Þá verða ION Adventure hótel Nesjavöllum og Pizzavagnin, sem verður við Félagsheimilið Borg, með sérstök tilboð og afslætti.

Nokkur býli bjóða fólk velkomið að skoða húsdýrin og lífið í sveitinni. Rúna og Elvar á Stóra Hálsi verða með geitur, kanínur og geitur. Auk þess veður Ásdís með ýmsar prjónavörur til sölu í hlöðunni. Guðni Reynir og Sigrún í Miðengi sýna hesta, kindur og lömb.

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni býður upp á skemmtilega fjölskyldudagskrá alla helgina. Hjá Ártanga verður kokkur með kynningu á kryddjurtum og notkun þeirra. Gagnvirk orkusýning verður í Ljósafossstöð. Þá verður opið í Kerinu þar sem boðið verður upp á kakó og kleinur. Einnig verður opið í þjónustumiðstöðinni Hraunborgum og Hótel Grímsborgum. Einnig verður hægt að skella sér í góf á Kiðjabergi eða í Öndverðarnesi.

Nýjar fréttir