10 C
Selfoss

Kvittað upp á Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn 2018

Vinsælast

„Aðstaðan í Þorlákshöfn er mjög góð en við erum að bæta hana talsvert. Í fyrra stækkuðum við knattspyrnusvæðið verulega til uppfylla væntingar og þarfir gesta. Næst er það strandblakvöllurinn,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss.

Á föstudag undirritaði hann samning um að 21. Unglingalandsmót UMFÍ verði haldið í Þorlákshöfn verslunarmannahelgina 2018. Undir samninginn skrifuðu jafnframt Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, og Guðríður Aadnegard, formaður Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK). HSK verður mótahaldari Unglingalandsmóts UMFÍ í Þorlákshöfn 2018.

Tilkynnt var síðla árs 2015 að Unglingalandsmót UMFÍ árið 2018 verði haldið í Þorlákshöfn. Gunnsteinn segir að undirbúningur fyrir mótið hafi byrjað um leið og að hann hafi gegnið vel.

Félagsmenn HSK eru þaulvanir því að halda stórmót á vegum UMFÍ. Unglingalandsmót UMFÍ var haldið í Þorlákshöfn 2008 og á Selfossi 2012. Þá var Landmót UMFÍ haldið á Selfossi sumarið 2013. Eftir mánuð hefst svo Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði sem HSK skipuleggur með bæjarbúum. Opnað verður fyrir skráningar á mótið 1. júní næstkomandi.

Unglingalandsmót UMFÍ hafa verið haldin frá árinu 1992. Síðasta Unglingalandsmót var haldið í Borgarnesi um verslunarmannahelgina 2016. Keppendur voru tæplega 1.500 á aldrinum 11-18 ára. Mikill fjöldi fylgir keppendum, fjölskyldur og forráðamenn. Ætla má að um 10.000 manns hafi verið í Borgarnesi í tengslum við mótið í fyrra og er það mikil lyftistöng fyrir þau bæjarfélög sem halda þau. Mótið í ár verður haldið á Egilsstöðum.

Gunnsteinn segir íbúa í Þorlákshöfn búa að mikilli reynslu HSK þegar kemur að skipulagningu stórra viðburða auk þess sem aðstaðan í bænum til íþróttaiðkunar sem frábær eftir Unglingalandsmótið 2008. „Það er komin reynsla á þetta hjá okkur,“ segir Gunnsteinn bæjarstjóri í Ölfusi.

Nýjar fréttir