2.7 C
Selfoss

Sigurjón Örn nýr stjórnarformaður Sólheima

Vinsælast

Sigurjón Örn Þórsson var kjörinn nýr stjórnarformaður Sólheima á aðalfundi sjálfseignastofnunarinnar sem haldinn var sunnudaginn 14. maí sl. Pétur Sveinbjarnarson, fyrrverandi stjórnarformaður, hafði tilkynnt stjórn sjálfsseignastofnunarinnar að hann sæktist ekki eftir endurkjöri.

Ný stjórn var sjálfkjörin og í henni sitja auk Sigurjóns, Magnús Ólafsson, Sigríður Jóna Friðriksdóttir, Hildur Ómarsdóttir og Ómar Einarsson. Arna Einarsdóttir kemur ný inn í stjórn sem varamaður og tekur við af Óðinni Helga Jónssyni sem sóttist ekki eftir endurkjöri.

Sigurjón Örn Þórsson hefur setið stjórn Sólheima í 6 ár. Hann hefur m.a. sinnt starfi aðstoðarmanns félagsmálaráðherra, formennsku í félagsmálaráði Kópavogs og var formaður stjórnar Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Sigurjón er stjórnmálafræðingur að mennt og er í dag framkvæmdastjóri rekstrarfélags Kringlunnar.

Á aðalfundinum var fjallað um erfiða rekstrarstöðu Sólheima og þá umfjöllun sem birst hefur í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum. Það var niðurstaða fundarins að vinna markvisst að því að bæta starfseminina meðal annars með auknu samtali við alla hagsmunaaðila Sólheima og í samræmi við niðurstöður þjónustukönnunar sem unnin var af óháðum ráðgjafa. Á fundinum var Pétri Sveinbjarnarsyni þakkað fyrir gott samstarf og hans framlag í uppbyggingu Sólheima.

Pétur Sveinbjarnarson þakkaði stjórnarmönnum og starfsfólki fyrir gott og farsælt samstarf í gegnum árin á aðalfundinum. „Ég vil einkum þakka íbúum Sólheima fyrir einstaklega góða samveru síðustu 38 ár. Það hefur verið virkilega gefandi að koma að uppbyggingu Sólheima og halda arfleið Sesselju á lífi en Sólheimar er nú elsta sjálfbæra samfélagið í heiminum og hér hefur verið unnið mikið brautryðjanda starf,“ sagði Pétur.

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að taka við stjórnarformennsku þar sem það er mikill og samhentur vilji hjá stjórninni og stjórnendum að efla starf Sólheima til framtíðar. Meginmarkmið Sólheima er að skapa samfélag sem veitir öllum íbúum tækifæri til að vaxa, þroskast og að vera nauðsynlegur og virkur þátttakandi í samfélaginu. Ég vil leggja áherslu á aukið samtal meðal íbúa og hagsmunaaðila til að styrkja stöðu Sólheima þannig að hlúið sé að þörfum allra á Sólheimum,“ sagði Sigurjón Örn Þórsson.

Heimild: Heimasíða Sólheima.

Nýjar fréttir