-1.6 C
Selfoss

Vortónleikar Söngsveitar Hveragerðis í kvöld

Vinsælast

Nú þegar vorar og sólin vermir grund og farfuglarnir syngja okkur vorljóðin sín ætlar Söngsveit Hveragerðis að halda upp á 20 starfsafmæli sitt með vortónleikum. Tónleikarnir verða í Hveragerðiskirkju í kvöld, mánudaginn 1. maí, kl. 20:00.

Þema tónleikanna verða létt íslensk og erlend dægurlög, eftir nokkra landskunna höfunda. Má þar nefna Magnús Þór Sigmundsson, Megas, Gunnar Þórðarson, Magnús Eiríksson og Ólaf Gauk. Einnig lög eftir Simon og Garfunkel og fleiri erlenda höfunda.

Margt hefur drifið á daga Söngsveitarinnar þessi 20 ár sem hún hefur starfað. Tónleikar hafa verið haldnir víða hér heima og erlendis. Má þar nefna Kanada, Ungverjaland, Færeyjar og Ítalíu, þar sem söngsveitin tók þátt í kóramóti sem haldið var á mörgum stöðum í nágrenni Verona. Alls staðar hefur söngsveitin fengið frábærar undirtektir á sínum söngferðalögum. Söngsveitin ætlar að halda upp á 20 ára starfsafmæli með ferð til Skotlands í lok maí í vor.

Stjórnandi er Margrét Stefansdottir. Ester Ólafsdóttir leikur undir á píano. Gestir verða Unnur Birna Björnsdóttir söngkona, Sigurður Helgi Oddsson píanóleikari, hljómsveit frá Tónlistarskóla Árnesinga, stjórnandi Vignir Ólafsson.

Söngsveit Hveragerðis vonast til að sjá sem flesta og eiga ánægjulega stund saman.

Nýjar fréttir