11.7 C
Selfoss

Innanhúss tjón og öryggi heimila í jarðskjálftum

Vinsælast

Fimmtudaginn 6. apríl sl. voru starfsmenn á vegum Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði með kynningarverkefni í Sunnulækjarskóla á Selfossi fyrir alla nemendur í 8. bekk.

Fyrst voru stutt erindi þar sem fjallað var um jarðskjálftavá, jarðskjálfamælingar og hvað Suðurlandskjálftarnir árið 2000 og 2008 kenndu okkur varðandi tjón á húsnæði og innanstokksmunum.

Þar næst voru sýnd myndbönd frá tilraunum sem framkvæmdar voru á rannsóknarstofu í Lissabon í Portúgal. Tilraunirnar fólust í því að smíða herbergi í fullri stærð og innrétta það með hefðbundum húsgögnum (skrifborð, bókahillur, tölvubúnaður, veggmyndir o.fl.). Herbergið var síðan sett á tölvustýrt hristiborð sem gat hermt eftir raunverulegum jarðskjálftahreyfingum með þar til gerðum tjökkum og stýringum. Notast var við mældar hreyfingar frá Ölfusskjálftanum 29. maí 2008. Fyrst var herbergið hrist þar sem bókahillur og húsgögn voru án festinga og síðan aftur þegar búið var að festa húsgögnin með einföldum festingum (skrúfur, vinklar, kennaratyggjó). Myndböndin frá tilraunininni sýndu að mikill ávinningur fólst í því að festa búnaðinn.

Þriðji hluti kynningarverkefnisins var svo að hrista smækkað líkan af heimili með húsgögnum. Nemendur komu húsgögnum og öðrum innanstokksmunum fyrir í líkaninu og síðan var líkanið sett á lítið færanlegt hristiborð. Eins og áður var notast við raunverulegar mældar jarðskjálftahreyfingar þegar líkanið var hrist. Nemendur sáu með berum augum hvernig innanstokksmunir féllu niður meðal annars yfir rúm auk þess sem útgönguleiðir lokuðust. Aftur mátti greina mikilvægi einfaldra festinga.

Þessi heimsókn í Sunnulækjaskóla tengist Evrópuverkefninu „KnowRisk“ sem er samstarf rannsóknastofnana og háskóla á Ítalíu, Portúgal og á Íslandi (www.knowriskproject.com). Markmið verkefnisins er að greiða fyrir og auðvelda aðgengi yfirvalda og sveitafélaga að sérfræðiþekkingu á sviði jarðskjálftaáhættu. Aðaláherslan er á innanstokksmuni og lausan húsbúnaði sem getur valdið slysum og tjóni. Vísindaleg þekking er nýtt fyrir íbúa og samfélag með það að leiðarljósi auka öryggi á heimilum og draga úr jarðskjálftaáhættu.

Nýjar fréttir