8.4 C
Selfoss
Home Fréttir Flautuverkið Albúm eftir Elínu Gunnlaugsdóttur gefið út

Flautuverkið Albúm eftir Elínu Gunnlaugsdóttur gefið út

0
Flautuverkið Albúm eftir Elínu Gunnlaugsdóttur gefið út

Hjá Bókaútgáfunni Sæmundi er komið út á geisladiski flautuverkið Albúm eftir Elínu Gunnlaugsdóttur í flutningi Pamelu De Sensi flautuleikara.

Disknum fylgir ritlingur sem er myndlýsing þeirra Önnu Giudice og Alex Raso af verkinu. Stærð ritlings er sama og tíðkast á umslögum 45 snúninga hljómplatna eða 19×19 sm.

Verkið er fyrir alt-flautu og lúppu og er tónefni verksins unnið út frá fangamörkum allra í fjölskyldu Elínar. Myndlýsingin á verkinu er unnin út frá sömu hugmynd.

Verkið var frumflutt vorið 2015 á tónleikum Tónleikasyrpunnar 15:15 og tekið upp sama haust í Stúdíó Sýrlandi. Um upptökur og eftirvinnslu sá Þorkell Máni Þorkelsson.

Pamela De Sensi hefur verið ötul við að flytja albúm á tónleikum m.a. á Sumartónleikum í Sigurjónssafni sumarið 2015 þar sem Jónas Sen gagnrýnandi Fréttablaðsins bar mikið lof á verkið og leik Pamelu.

Elín Gunnlaugsdóttir tónskáld hefur sent frá sér fjölda tónverka á undanförnum árum og verk eftir hana komið út á hljómdiskum og í bókum. Árið 2011 kom út bókverk hennar Póstkort frá París með tónverkinu Leik sem er flutt af þeim Hallfríði Óskarsdóttur flautuleikara og Ármanni Helgasyni klarínettuleikara.