7.3 C
Selfoss

Fuglatónleikasyrpan „Vorið kemur“ í Eyrarbakkakirkju í apríl

Vinsælast

 

Þau Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún í Bakkastofu á Eyrarbakka blása til tónleikasyrpu með hlýjum vorblæ fyrir fólk á öllum aldri í hinni hljómfögru Eyrarbakkakirkju. Fyrstu tónleikarnir sem bera heitið „Vorið kemur“ verða sunnudaginn 9. apríl nk. kl. 15 og síðan á sama tíma á Skírdag og Sumardaginn fyrsta.

Hvað eru fuglatónleikar, kunna margir að spyrja og ekki að undra? Jú, það eru tónleikar með textum sem fjalla um fugla himinsins eins og þeir birtast í ljóðum Jóhannesar úr Kötlum, skáldsins góða í Hveragerði.

Valgeir Guðjónsson Bakkastofubóndi hefur í þrígang gefið út plötu með lögum sem hann samdi við kvæði Jóhannesar. Þegar þriðja platan kom út fyrir rúmur tveimur árum, heimsótti Valgeir tugi leikskóla og grunnskóla og flutti lögin fyrir börn, 2 til 15 ára. Bakkastofa hefur líka boðið gestum á öllum aldri að hlýða á fuglalög Valgeirs og Jóhannesar við afar góðar undirtektir.

Ásta Kristrún, í Bakkastofu, segir að tónleikaröð helguð fuglum sé svo sannarlega við hæfi í Flóanum og á Eyrarbakka, enda Fuglafriðlandið allt um kring. Þá bætir hún við að frumkvöðlar í fuglaskoðun voru á Eyrabakka á 19. öld eins og Eggjaskúrin norðan við „Húsið“ ber vitni um.

Að lokum bendir Ásta á að kjörið sé að líta við á páskamálverkasýninguna í „Húsinu“ sem opnar þann 8. apríl með verkum Ingu Hlöðvers og stendur fram til 23. apríl. Þar má líta listileg olíumálverk Ingu af fuglum, sem búa flestir allt í kringum okkur.

Nýjar fréttir