10 C
Selfoss

Sýningarlok og leiðsögn í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Komið er að lokum sýningarinnar Nautn / Conspiracy of Pleasure og á síðasta sýningardegi, á morgun sunnudag, verða þrír af sex listamönnum með leiðsögn um eigin verk kl. 14:00, en það eru Anna Hallin, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason / Pabbakné.

Sýningin hefur almennt fengið góðar viðtökur en þó einnig blendnar enda viðfangsefnið stundum viðkvæmt. Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Sýningin er eins konar könnunarleiðangur um ólíkar birtingarmyndir nautna; hvernig hún þær birtast í neyslusamfélagi samtímans, sem árátta, neysla og /eða erótík en líka líka í glímunni við efni og áferð við listsköpun. Auk þeirra þriggja sem ræða um verk sín á lokadegi sýningarinnar eru þar að sjá verk eftir Birgi Sigurðsson, Eygló Harðardóttur og Guðnýju Kristmannsdóttur sem þegar hafa komið og rætt um verk sín. Í spjalli við listamenn verða oft til áhugaverðar samræður með gagnlegum upplýsingum og því tilhlökkunarefni að heyra hvað þau Anna, Helgi og Jóhann hafa um verk sín að segja.

Á sýningunni eru verk sem vekja áleitnar spurningar. Anna vinnur með teikningu og leirskúlptúra á mörkum hins stýriláta og ósjálfráða og í verkum hennar má líka finna fyrir þeirri munúð sem felst í listsköpuninni. Helgi og Jóhann eru pólitískari í sínum innsetningum. Helgi sækir myndefni í fréttamiðla og við sögu koma vígasveitir, áróður, mótun þjóða, nautnahyggja þar sem útlit skiptir máli frekar en innihald, mennska og ómennska svo eitthvað sé nefnt en með orðaleikjum og samfélagsgagnrýni vinnur Jóhann verk með írónísku ívafi og snertir þá strengi að áhorfandinn veit varla hvort hann eigi að hlægja eða gráta.

Aðgangur að safninu og leiðsögninni er ókeypis og allir velkomnir.

Nýjar fréttir