11.7 C
Selfoss

Hollvinasamtök menningarsalar á Selfossi verða stofnuð

Vinsælast

Kunnara er en frá þurfi að segja að menningarsalur fyrir Sunnlendinga hefur verið í smíðum frá árinu 1972 í húsnæði Hótels Selfoss að Eyravegi 2 á Selfossi. Salurinn er í dag í eigu Sveitarfélagsins Árborgar og stendur vilji og áhugi fjölmargra áhugamanna um listir og menningu á Suðurlandi til þess að koma salnum í gagnið, þannig að menningarstarfsemi á Suðurlandi geti betur blómstrað, hvort sem um er að ræða leiklist, tónlist eða hvert það tilefni sem salurinn getur borið. Salurinn tekur um 280 manns í sæti og hefur Sveitarfélagið Árborg fengið Ara Guðmundsson hjá verkfræðistofunni Verkís á Selfossi til að fara yfir þá þætti í hönnun og útliti salarins og kostnaðarmeta þær framkvæmdir sem gera þarf til að koma salnum í gagnið. Rætt hefur verið við menningar- og menntamálaráðherrann Kristján Þór Júlíusson varðandi aðkomu ríksins að verkefninu ásamt öllum 10 þingmönnum Suðurkjördæmis sem hafa skoðað salinn og kynnt sér forsendur. Einnig hefur verið rætt við eigendur Hótels Selfoss um aðkomu að verkefninu og mögulegan rekstur salarins í framtíðinni sem og aðkomu Sveitarfélagsins Árborgar. Ljóst er að margar hugmyndir og góður hugur hefur verið til þess á liðnum áratugum að koma salnum í gagnið í þágu menningar á Suðurlandi en því miður hefur það ekki tekist. Ekki hjálpar að dvelja við það til eilífðarnóns heldur sækja fram og setja allar vangaveltur aftur fyrir og horfa til framtíðar. Nú er lag að sækja fram og með samhentu átaki getur þetta tekist.

Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa skyldum að gegna gagnvart landsbyggðinni sem er meðal annars að fara með verkefni út um landið og leyfa eigendum og greiðendum þessara mikilvægu menningarstofnana að njóta einhvers hluta þess sem þeir hafa fram að færa. Það hefur ekki verið mögulegt svo neinu nemi sökum skorts á aðstöðu á Suðurlandi sem myndi opnast fyrir með því að klára menningarsalinn. Einnig myndi aðstaða menningarstarfsemi í Sveitarfélaginu Árborg verða betri fyrir leikfélög, kóra, tónlist og fleira, sem og áhugamannaleikfélög um allt Suðurland og kóra svo dæmi séu tekin. Einnig myndi stórlega batna aðstaða til ráðstefnuhalds sem nýst gæti vel mögulegum rekstraraðilum. Margt má til nefna og er það einlægur vilji margra áhugamanna um menningu á Suðurlandi að stofna hollvinasamtök fyrir menningarsal Suðurlands, þar sem öllu áhugafólki um menningu í víðasta skilningi þess orðs er boðin þátttaka. Boðað hefur verið til stofnfundar í Kaffi Selfoss, fimmtudaginn 30. mars nk. klukan 18:30 og eru allir áhugamenn hvattir til að mæta. Eru fulltrúar leikfélaga, kóra og annarar menningartengdrar starfsemi á Suðurlandi sérstaklega hvattir til að mæta. Ari Guðmundsson hjá Verkís mun kynna niðurstöður hönnunar og kostnaðar á fundinum.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar
Bergsveinn B. Theodórsson

Nýjar fréttir