3.4 C
Selfoss
Home Fréttir Aukin þjónusta heimahjúkrunar og viðbótar hvíldarrými á HSU

Aukin þjónusta heimahjúkrunar og viðbótar hvíldarrými á HSU

0
Aukin þjónusta heimahjúkrunar og viðbótar hvíldarrými á HSU
Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi. Ljósmynd: ÖG.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands óskaði eftir auknu fjárframlagi hjá Velferðaráðuneytinu í kjölfar ákvörðunar um lokun hjúkrunarheimilisins Kumbaravogs, til að bæta við tveimur hvíldarrýmum á Selfossi og til að auka heimahjúkrunarþjónustu á svæðinu. Með lokuninni var fyrirséð að biðtími eftir hjúkrunarrými á svæðinu yrði lengdur og veikari einstaklingar yrðu í heimahúsi og núverandi heimahjúkrunarþjónusta yrði ekki nægjanleg. Afleiðingarnar yrðu fleiri innlagnir á sjúkradeild HSU á Selfossi sem aftur leiddi til að vísa yrði frá Sunnlendingum sem koma á deildina eftir aðgerðir og alvarleg veikindi frá Landspítala. Erindinu HSU var vel tekið í ráðuneytinu og hefur nú fengist viðbótarfjármagn til að hefjast handa við að auka þjónustu við aldraða og aðra þá sem eru veikir í heimahúsum.

Á Selfossi eru 40 hjúkrunarrými á deildunum Ljósheimum og Fossheimum. Af þessum 40 rýmum hafa tvö verið nýtt sem hvíldarrými. Með lokun Kumbaravogs varð að breyta hvíldarrýmum í varanleg rými tímabundið. Með tilkomu viðbótarfjármagns verður tveimur hvíldarrýmum bætt á hjúkrunardeildirnar tímabundið eða þar til nýtt hjúkrunarheimili í Árborg rýs. Þar verður hefðbundin hvíldardvöl fyrir þá sem þurfa en sótt er um hvíldarinnlagnir til Færni- og heilsufarsnefndar á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að hvíldarrýmin verið opnuð um næstu mánaðarmót.

Á Selfossi, Hveragerði og Ölfusi er sameiginleg þjónusta heimahjúkrunar. Um er að ræða þjónustu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða alla virka daga og sjúkraliða á kvöldin og um helgar. Þjónusta hjúkrunarfræðinga hefur ekki verið í boði utan dagvinnutíma nema í völdum tilvikum.

Með viðbótarfjármagni því sem ráðuneytið hefur veitt stofnuninni til að efla heimahjúkrun verður þjónusta hjúkrunarfræðinga utan dagvinnutíma bætt. Gert verður ráð fyrir kvöld og helgarþjónustu fyrir svæðið.

Á öðrum starfssvæðum HSU verður heimahjúkrun elfd eftir þörfum hverju sinni en ekki er gert ráð fyrir skiplagðri kvöld- og helgarþjónustu.

Með aukinni heimahjúkrun er skjólstæðingum okkar sem þurfa á hjúkrunarmeðferð að halda auðveldað að dvelja lengur í heimahúsi. Hægt verður að veita einstaklingum með langt gengna langvinna sjúkdóma, óháð aldri, aukna þjónustu hjúkrunarfræðinga s.s.einstaklinga sem eru í erfiðum krabbameinslyfjameðferðum og þurfa þjónustu í kjölfar þess og aðra þá sem þurfa flókna hjúkrunarþjónustu vegna veikinda til skemmri eða lengri tíma.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Anna María Snorradóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar HSU