8.9 C
Selfoss

Hjálparstarf í Afríkuríkinu Búrkína Fasó

Vinsælast

Þann 6. febrúar 2017 lagði þrettán manna hópur af stað frá Íslandi til Afríkuríkisins Búrkíina Fasó. Af þessum þrettán einstaklingum voru fjórir frá Árborg. Tilgangur ferðarinnar var að fræðast um og hjálpa til við starf ABC skólans í borginni Bóbó sem er í Búrkína Fasó.

ABC barnahjálp er íslenskt hjálparstarf sem stofnað var árið 1988. Starfið miðar að því að veita fátækum börnum tækifæri til menntunar og að hjálpa götubörnum í ýmsum löndum með því að veita þeim heimili og menntun. ABC skólinn í Búrkína Fasó var stofnaður árið 2008 af hjónunum Hinriki Þorsteinssyni og Guðnýju Ragnhildi Jónasdóttur, sem búa í dag á Selfossi en voru lengi búsett í Fljótshlíðinni.

Þegar Hinrik og Guðný Ragnhildur, eða Gullý eins og hún er gjarnan kölluð, komu fyrst á svæðið þar sem átti að rísa skóli með tæplega 600 börnum, var ekkert á svæðinu nema hornsteinn sem afmarkaði landið. Fyrstu árin ráku þau hjónin, í samstarfi við trausta heimamenn og kennara, skólann í lánshúsnæði. Árið 2011 hófst uppbygging á svæðinu og í dag stendur þar grunnskóli, framhaldsskóli, verkmenntaskóli, heilsugæsla, matssalur og eldhús sem nú er verið að endurnýja. Einnig er hreinlætisaðstaða fyrir börnin á svæðinu. Á lóðinni sem er í sífelldri uppbyggingu er verið að búa til gott íþróttasvæði. Enn sem komið er hefur verið steyptur þar körfuboltavöllur sem einnig er notaður undir fimleikaæfingar, afmarkaður hefur verið fótboltavöllur, handboltavöllur og í ferðinni var settur upp blakvöllur. Þessi íþróttaaðstaða er ekki aðeins nýtt af börnum í skólanum á skólatíma heldur er aðstaðan opin eftir skólatíma fyrir börn úr hverfinu og þá sem vilja. Á meðan dvöl hópsins stóð sáum við á hverju kvöldi fjölda ungra stráka og stelpna sem komu og spiluðu fótbolta og körfubolta fram að sólsetri.

Við sem vorum svo lánsöm að fá að fara, upplifa og vera þátttakendur í starfinu, þó ekki hafi verið nema í stuttan tíma, erum sammála um og eiginlega orðlaus yfir því hversu miklu þetta starf breytir fyrir börn sem fá inngöngu í skólann. Börnin fá menntun sem getur lagt grunn að betri framtíð fyrir þau. Í skólanum fá þau eina heita máltíð á dag. Sú máltíð er í sumum tilfellum eina máltíðin þeirra yfir daginn.

Skólinn breytir ekki aðeins lífi barnsins sem fær menntunina heldur hefur það mun víðtækari áhrif inn í fjölskyldu þess. Barn sem hlýtur menntun getur borið þá þekkingu sem það öðlast áfram til systkina sinna og jafnvel foreldra. Dæmi eru um að börn geti aðstoðað ólæsa foreldra sína í aðstæðum sem krefjast þekkingar á bókstöfum, tölum og lestri t.d. í innkaupum á markaðnum.

Skólinn í Búrkína Fasó hefur sterk tengsl við Selfoss í gegnum Hvítasunnukirkjuna á Selfossi og Nytjamarkaðinn á Selfossi. Á hverju ári sendir Nytjamarkaðurinn talsverða fjármuni til að styðja við uppbygginguna og starfið í heild. Þessir fjármunir hafa hjálpað til við að byggja upp og styðja við fleiri börn en ella hefði verið hægt. Því viljum við þakka öllum þeim sem hafa komið með vörur á Nytjamarkaðinn og einnig þeim sem hafa verslað þar.

Staðan er því miður sú að sem stendur vantar um 80 stuðningsaðila fyrir börn í skólanum í Búrkína Fasó. Það kostar 3.500 kr. á mánuði að styrkja eitt barn. Það er okkar einlæga upplifun að þessar 3.500 kr. umbreyta lífi barna og fjölskyldna þeirra. Ekki halda að 3.500 kr. sé það lítið að það geti varla breytt nokkru. Við fullyrðum að þinn stuðningur getur skipt öllu máli fyrir líf barns.

Við viljum að lokum skora á Sunnlendinga, einstaklinga og fyrirtæki að taka að sér barn í Búrkína Fasó og taka þátt í að brúa bilið fyrir þessi 80 börn sem vantar stuðning. Hver veit nema að við í sameiningu, getum skorað á aðra að gerast stuðningsaðilar fyrir börn í ABC skólum í öðrum löndum. Verum samfélag og land sem lætur okkur velferð annarra varða.

Ef þú hefur áhuga á að styrkja barn frá Búrkína Fasó getur þú farið inn á heimasíðu ABC (abc.is) og valið barn frá Búrkina Fasó til að styrka. Þú getur einnig haft samband símleiðis við ABC á Íslandi í síma 414-0990.

Með kærleikskveðjum
Helga Lind Pálsdóttir og Einar Rúnar Einarsson.

Nýjar fréttir