1.1 C
Selfoss

Emilie Dalum sýnir í Bókasafninu í Hveragerði

Vinsælast

Emilie Dalun opnar ljósmyndasýningu á Bókasafninu í Hveragerði í dag kl. 17 sem hún kallar hún „Emilie“. Sýningin, sem er mjög persónuleg, túlkar ytri og innri upplifun hennar á krabbameinsmeðferð til bata, en hún greindist með eitlakrabbamein í febrúar 2016. Á sýningaropnuninni segir Emilie frá sjálfri sér og efni sýningarinnar og fjallar um hvernig það er að greinast ungur með krabbamein.

Emilie segir: „Litlir fjársjóðir hversdagslífsins verða töfrandi ef þú þorir að skoða þá í návígi og með opnum huga. Með myndavél í hönd nálgast ég viðfangsefnið og túlka þakklæti fyrir sérstöðu hverrar manneskju, fyrir hvert líf, hvern atburð. Mín leið að verkinu er byggð á miklu innsæi og beinskeyttri nálgun.”

Emilie fæddist í Danmörku árið 1989. Hún lauk BA námi í evrópskri þjóðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Einnig lauk hún framhaldsmenntun í Fatamorgana, dönskum heimilda- og listaljósmyndaskóla, þar sem hún þroskað sína eigin persónulega rödd í ljósmyndun aðallega með því að mynda fólkið í lífi sínu. Emilie hefur búið á Íslandi frá 2012 og býr nú í Reykjavík

Emilie hefur sýnt í Danmörku og á ýmsum stöðum á Íslandi, m.a. í Djúpuvík og Ólafsvík. Þessa dagana er hún að skipuleggja listasýningu sem verður í Djúpuvík sumarið 2017, en þar er hún sýningarstjóri. Auk þess stundar hún nám í hönnun við Tækniskóla Íslands.

Sýningin er opin um leið og safnið, þ.e. mánudaga kl. 11-18:30, þriðjudaga – fimmtudaga kl. 13–18:30 og laugardaga kl. 11–14. Sýningin stendur til 31. mars.

Nýjar fréttir