2.8 C
Selfoss

Frábær leiksýning hjá Leikfélagi Selfoss

Vinsælast

Undirritaður var viðstaddur frumsýningu hjá Leikfélagi Selfoss sl. föstudagskvöld á sýningunni „Uppspuni frá rótum“ sem er 81. verkefni félagsins á 59. leikári þess en sýningin var á heimavelli félagsins, leikhúsinu við Sigtún.

Leikstjóri sýningarinnar er Þórey Sigþórsdóttir og ferst henni það verk vel úr hendi en leikarar á sviði eru 15 auk starfsmanna við sýninguna. Margir nýjir leikarar eru að hasla sér völl hjá félaginu og miðað við það litla vit sem ég hef á leiklist þá standa þeir vel fyrir sínu og leikritið heldur manni við efnið allan tímann. Góður húmor, söngur og flott tónlist eru einkenni sýningarinnar og er góð skemmtun í alla staði.

Leikfélagið sýnir enn og aftur metnað í sínum verkefnum og er félaginu til sóma. Ég get með góðri samvisku hvatt alla listunnendur til þess að leita ekki langt yfir skammt og mæta í Litla leikhúsið við Sigtún og sjá „Uppspuna frá rótum“ það verður enginn svikinn af því. Til hamingju leikfélag Selfoss og takk fyrir mig.

Ps: Ég vil sem formaður íþrótta- og menningarnefndar Árborgar nota tækifærið í leiðinni og óska handknattleiksdeild UMF Selfoss, leikmönnum 4. flokks karla og þjálfurum til hamingju með bikarmeistaratitilinn um nýliðna helgi.

Kjartan Björnsson, formaður íþrótta og menningarnefndar Árborgar.

Random Image

Nýjar fréttir