9.5 C
Selfoss

Þórsarar í úrslit annað árið í röð

Vinsælast

Körfuknattleikslið Þórs í Þorlákshöfn komst í úrslitaleik Maltbikarsins annað árið í röð er liðið sigraði Grindavík í hörku leik í Laugardalshöllinni í kvöld. Leikurinn var lengst af jafn og spennandi þó svo Þór hefði um tíma náð góðri forystu. Lokamínúturnar voru æsispennandi en að lokum fór svo að Þór vann 106:98.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og komust í 11:2. Grindavík náði að vinna þann mun upp og staðan eftir 1. leikhluta var 24:23. Sama var upp á teningnum í 2. leikhluta og í hálfleik munaði aðeins tveimur stigum 46:44. Þriðja leikhluta unnu Þórsarar 30:20 og voru því í nokkuð góðri stöðu með 12 stiga forskot 76:64 fyrir lokaleikhlutann.

Grindvíkingar spíttu í lófana og náðu að gera leikinn æsispennandi er þeir jöfnuðu 95:95 þegar ein mínúta og 20 sekúndur voru eftir. Þórsarar komust í 98:85 með þriggja stiga körfu frá Tobin Carberry. Aftur jöfnuðu Grindvíkingar 98:98 með þriggja stiga körfu Lewis Clinch Jr. Þegar hér var komið sögu voru tæpar 50 sekúndur eftir. Þórsarar reyndust sterkari á lokametrunum og skoruðu síðustu átta stig leiksins og unnu að lokum 106:98.

Þar með komust Þórsarar í úrslitaleik bikarkeppninnar annað árið í röð og mæta KR líkt og þeir gerðu í fyrra. Leikurinn verður á laugardaginn og hefst kl. 16:00. Nú verða allir Hafnarbúar og stuðningsmenn Þórs að mæta í Höllina og hvetja sína menn til sigurs. Fyrir þá sem ekki komast þá verður leikurinn sýndur beint í Sjónvarpinu.

Nýjar fréttir