10 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Sameining VMS við VR samþykkt með 85% atkvæða

Sameining VMS við VR samþykkt með 85% atkvæða

0
Sameining VMS við VR samþykkt með 85% atkvæða
Gils Einarsson starfsmaður Suðurlandsdeildar VR.

Nú er lokið rafrænni atkvæðagreiðslu um sameiningu Verslunarmannafélags Suðurlands við VR, en hún stóð yfir frá 23. til 30. janúar 2017. Sameining þessara félaga var samþykkt með 85% atkvæða þeirra sem þátt tóku í kosningunni.

Nú eru liðin hartnær þrjú ár síðan farið var að huga að sameiningu VMS við önnur félög. Aðal ástæðurnar fyrir því voru að lítið félag eins og VMS með 1.100 félagsmenn var of lítil eining til að geta fullnægt þeim auknu kröfum sem gerðar eru til stéttarfélags í dag. Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna þurfa reglulega að gangast undir tryggingafræðilega úttekt. Síðasta úttekt gaf félaginu grænt ljós en blikur voru þó á lofti ekki aðeins hjá okkar félagi heldur einnig hjá öðrum félögum af smærri gerðinni. Sum félög hafa þurft að færa réttinn til sjúkradagpeninga úr sex mánuðum eins og VMS er með niður í fjóra mánuði. Sú staða er ekki ásættanleg fyrir VMS.

Verslunarmannafélag Suðurlands gerði óformlega könnun á netinu um vilja félagsmanna til sameiningar við önnur félög og kom þar í ljós vilji til að ræða við VR og Báruna, stéttarfélag en þó voru fleiri sem völdu VR. Á aðalfundi í apríl 2016 var ákveðið að fara í könnunarviðræður við Báruna, stéttarfélag og VR um sameiningu í huga. Kosin var nefnd til að ræða við félögin. Eftir viðræður við félögin voru þeim sendar spurningar og þau beðin að svara þeim. Þær upplýsingar voru svo kynntar félagsmönnum VMS á heimasíðu félagsins. Boðað var til auka aðalfundar hjá VMS 15. nóvember 2016 þar sem lögum var breytt þannig að rafræn allsherjar atkvæðagreiðsla yrði bindandi. Samþykkt var á sama fundi tillaga meirihluta stjórnar VMS að ganga til samninga við VR og yrði sá samningur lagður fyrir í atkvæðagreiðslunni og var það samþykkt með 80% atkvæða. Skrifað var undir sameiningarsamning við VR þann 30. desember 2016 og sá samningur var svo lagður fyrir í rafrænni allsherjar atkvæðagreiðslu eins og áður sagði sem stóð frá 23. til 30. janúar 2017 þar sem sameiningin var samþykkt af 85% þeirra félagsmanna sem þátt tóku.

Stofnuð verður VR Suðurlandsdeild og nær hún yfir sama félagssvæði og VMS gerði áður, þ.e. Árnes-, Rangárvalla- og Vestur–Skaftafellssýslur. Þær breytingar sem verða hér á skrifstofunni eru þær að skrifstofan verður stórefld, starfsmönnum verður fjölgað og stöðugildin sem voru eitt komma fjögur verða nú að rúmum þremur stöðugildum. Talsverðar breytingar verða á verkefnum skrifstofunnar sum verkefnin fara til Reykjavíkur en önnur koma hingað á Selfoss. Enginn starfsmaður sem var hjá Þjónustuskrifstofunni missir vinnuna við sameininguna. Ásta Björk sem er hjá ÞSS og undirritaður munu verða starfsmenn deildarinnar og auglýst verður svo eftir starfsmanni þegar þar að kemur. Félagsmenn VMS urðu fullgildir félagar í VR þann 1. febrúar síðastliðinn með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.

Þó auðvitað sé eftirsjá að Verslunarmannafélagi Suðurlands er það trú mín að þetta verði gæfuspor fyrir okkur félagsmenn og að réttindi okkar eigi eftir að stóraukast. Skrifstofa Suðurlandsdeildar VR mun að sjálfsögðu þjónusta þig eins vel og mögulegt er. Við verðum áfram á Austurvegi 56 Selfossi og bjóðum þig velkomin.

Með bestu félagskveðju
Gils Einarsson, fyrrverandi formaður VMS.