11.1 C
Selfoss

Marineruð gæsabringa

Marineruð gæsabringa
Ólafur Tage Bjarnason er sunnlenskur matgæðingur.

Ólafur Tage Bjarnason er matgæðingur vikunnar.

Ég vil þakka göldrótta veiðimanninum Sævari kærlega fyrir heiðurinn. Að fá tækifæri til að fræða Sunnlendinga um matseld hefur lengið verið draumur hjá mér. Konan mín vill meina að ég eldi nú aðallega „kallamat“ sem er þá hennar skilgreining á einföldum réttum þar sem aðalatriðið er kjöt.

Ég er þó heppinn með að hafa mikið matarfólk í kringum mig og fæ ég því að kynnast framandi matseld í gegnum uppskriftir frá þeim. Eftirfarandi uppskrift er af marineraðri gæsabringu sem er vinsæl á mínu heimili.

Marinering
1 dl ólífuolía
2 fingur (á stærð við fingur) engifer (maukaður)
1 stk. hvítlaukur (maukaður)
1 flaska soyasósa
½ staukur villijurtir frá Pottagöldrum
2 msk. (jurta) Herba salt.

Öll hráefni sett í matvinnsluvél og blandað vel saman. Kjöt lagt í löginn og látið liggja í ísskáp í tvo sólarhringa. Mar-in-ering hentar á ýmsar aðrar gerðir kjöts, t.d. svartfugl og nautakjöt.

Eldun á gæsabringum
Gæsabringur eru brúnaðar á vel heitri pönnu. Því næst eru bringur steiktar í 120° heitum ofni þar til kjarnhiti hefur náð 62° (ekki ofelda). Bringur eru látnar hvíla vel áður en þær eru framreiddar.

Sósa
Tasty villisveppasósugrunnur frá Gourmet
50 ml vatn
½ ltr. rjómi
20 gr. villisveppir (þurrkaðir)
1 msk. hlynsíróp (maple síróp)
Sósujafnari
Grænmetiskraftur
Villikraftur frá Oscar

Einfalt og gott, fylgt er upp-skrift á Tasty sósugrunninum. Í okkar fjölskyldu finnst okkur gott að sleppa púrtvíni sem fram kemur í uppskrift og bæta við grænmetis- og villikrafti.

Meðlæti
Vinsælt er að vera með brúnaðar karftöflur, gular baunir með bráðnu smjöri og rauðkál.

Verði ykkur að góðu.