8.9 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hannyrðahornið Pils í útivistina

Pils í útivistina

Pils í útivistina

Hér er uppskrift að stuttu pilsi sem hentar sérlega vel í hverskonar útivist og úti íþróttir. Uppskriftinni er auðvelt að breyta á ýmsa vegu, auka sídd og hækka stroffið í mittinu, allt að vild. Einnig er auðvelt að breyta stærðinni, 6 l auka víddina um tæpa 5 sm.

Garnið er sérlega hlýtt og mjúkt, gróft merino ullargarn og endurskinsþráðurinn sem aðeins sést í beinu ljósi gerir sitt ómælda gagn.

Efni: Saphira frá Gründl, 100 % merino superwash, 4 dokkur og ein dokka, Glowworm Luciole frá Rico.
Hringprjónn no 7, 80 sm. Prjónafesta 14 l = 10 sm
Stærð: Mjaðmavídd 94 cm, mitti 70 – 76  cm

Munstur

Úrtaka 1: Þegar 3 l eru eftir að hliðarmerkingu eru 2 l prjónaðar saman, síðan eru prjónaðar 2 l, næsta tekin óprj framaf, ein prjónuð og þeirri óprjónuðu steypt framyfir. Endurtekið í 4. hverri umferð.

Úrtaka 2: Strax eftir prjónamerkið er tekin 1 l óprj framaf, næsta l prjónuð  og síðan er þeirri óprjónuðu steypt framyfir. Endurtekið í 2. hverri umferð.

Úrtaka 3: Þegar 2 l eru að prjónamerkinu eru prjónaðar 2 l saman. Endurtekið í 2. hverri umferð.

Fitjið upp 120 l, tengið saman í hring og prjónið stroff, 1 sl, 1 br, alls 4 sm.  Prjónið næstu umferð sl og aukið út í 10. hverri l með því að prjóna í næstu lykkju fyrir neðan. Þá eiga að vera 132 l á prjóninum. Prjónið áfram eftir munstri.

Þegar síddin er 18 sm er gott að merkja fyrir úrtökum þannig: Setjið fyrst prjónamerki í hliðarnar, gjarnan í sitt hvorum litnum þar sem úrtaka 1 er gerð. Síðan tvö prjónamerki eins á litinn 15 l á eftir hliðarmerkjunum þar sem úrtaka 2 er gerð og önnur tvö í eins lit, 15 l fyrir hliðarmerkin þar sem úrtaka 3 er gerð.

Byrjið á úrtöku 1 og í sjöundu umferð eftir að úrtaka byrjar er bætt við úrtöku skv leiðbeiningum um úrtöku 2 og 3. Úrtöku lýkur þegar 84 l eru eftir á prjóninum.

Prjónið eina umferð með grunnlit. Prjónið stroff eins og áður 5 sm og fellið af. Mjög mikilvægt er að fella laust af og góð aðferð til þess er þannig: Prjónið 2 l (sl eða brugðið eftir lykkjunni sem prjónuð er). Setjið vinstri prjóninn til baka í gegnum lykkjurnar og prjónið þær saman. *Prjónið eina lykkju og setjið vinstri prjóninn til baka í gegnum 2 lykkjur og prjónið þær saman*. Endurtakið *-* þar til ein lykkja er eftir. Slítið frá og dragið endann í gegnum lykkjuna. Gangið frá endum. Þvoið og leggið til þerris.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir