2.7 C
Selfoss
Home Fastir liðir Sunnlenski matgæðingurinn Leyniuppskriftin mín af grillaðri pítsu

Leyniuppskriftin mín af grillaðri pítsu

Leyniuppskriftin mín af grillaðri pítsu
Valdimar Gylfason er sunnlenskur matgæðingur.

Ég vil þakka Gunnari kærlega fyrir þessa áskorun, en einnig ætla ég að benda á að uppskriftin hans er komin frá Selmu, unnustu hans þar sem Gunni kann einungis að grilla sér samloku með skinku og osti, hann á það reyndar til að sprauta vel af grænmetissósu yfir lokurnar þegar grillunin heppnast ekki alveg hjá honum. En ég ætla ekki að flækja málin heldur einfalda þau fyrir ykkur. Ég ætla að uppljóstra leyniuppskriftinni minni á grillaðri pizzu. Byrjum þetta bara!

Deig
500 gr. hveiti
1 tsk. þurrger
2 tsk. salt
210 ml vatn
1 dl bjór (mikilvægt hráefni)
1/2 dl olía

Fyrst er öllum þurrefnum blandað vel saman, því næst er öllum vökva blandað saman sem er svo hitaður upp að stofuhita. Síðan hellið þið vökvanum saman við þurrefnin og botnið hrærivélina í ca. 8 mínútur. Næsta verkefni er blautt viskustykki yfir skálina og látið hefast í 45-60 mín. Þetta deig dugar í þrjár 12” pizzur.

Álegg
Þessi hlutur er í raun algjörlega í ykkar höndum en mikilvægt er þó að raða í réttri röð:
1. Sósa – 2. Ostur – 3. Ykkar val.

Mitt uppáhald er að grilla pizzuna bara með sósu og osti og henda svo slatta af hráskinku og ruccola-salati yfir með „dassi“ af Parmesan-osti og hvítlauksolíu til að toppa þetta.

Grillun
Kaupið pizzustein frá Weber, botna grillið, steininn á og hann látinn hitna vel á grillinu á meðan þið græið pizzurnar. Með steininum fylgir álplata sem þið hafið pizzuna á fyrstu 5 mínúturnar á grillinu, eða þangað til að botninn er laus frá plötunni, þá rennið þið pizzunni af plötunni og beint á steininn. Svo er bara að bíða í ca. 6-10 mín. og þá er allt klárt!

Ég vil skora á bóður minn, Bjarka Gylfason rafverktaka og veiðimann með meiru, að koma með einhverja góða uppskrift frá Pétri á Fjöruborðinu.