2.9 C
Selfoss

Leggur til nýja heimavist í Fjölbrautaskóla Suðurlands

Vinsælast

Ingveldur Anna Sigurðardóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi settist á þing á dögunum í fjarveru Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Hún lagði þar inn nokkrar fyrirspurnir og tillögur. Meðal þeirra var tillaga til þingsályktunar um heimavist fyrir Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Núverandi vist mjög óhentug

Eins og staðan er núna er vistin þannig að verið er að leigja húsnæði með 18 herbergjum sem er rekið sem farfuglaheimili og er sú starfsemi á neðri hæð húsnæðisins. Um tíma dvöldu einnig farandverkamenn þar. „Um er að ræða mjög óhentugt húsnæði fyrir ungmenni og þau geta t.d. ekki dvalið þar um helgar og verða því að treysta á almenningssamgöngur eða bíl til þess að komast heim til foreldra sinna,“ segir Ingveldur Anna í samtali við Dfs.is.

Ingveldur segir að góð heimavist sé mjög mikilvæg svo að ungmenni séu ekki að festast á leigumarkaði og þurfi að treysta á hann af því að þau búi langt frá framhaldsskólanum sínum. „Skólinn er í eigu ríkisins og sveitarfélaga á Suðurlandi og því er mikilvægt að hann sé gerður aðgengilegur fyrir nemendur sem þurfa að sækja hann mörg hundruð kílómetra frá heimili sínu.“

Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýsla ásamt Ríkissjóði eiga skólann sameiginlega og því er þjónustusvæðið gríðarlega stórt og mörg ungmenni sem þurfa að flytja til þess að sækja sér framhaldsnám. Ég er ekki með nákvæma tölu af ungmennum sem gætu þurft að nýta sér álíka úrræði en veit til þess að þetta hefur skort bara í kringum mig og úr minni sýslu þar sem ég er búsett, sem er Rangárvallasýsla.“

Vægast sagt gaman á heimavist

Ingveldur segir Fjölbrautaskóla Suðurlands hafa verið með hentuga heimavist á sínum tíma á Eyravegi 26. Þá var hún í íbúðaeiningum og stutt frá skólanum. Reynslan af henni var mjög góð að sögn Ingveldar. Hún hefur sjálf reynslu af heimavist skólans.

„Ég var á heimavist fyrsta árið mitt í framhaldsskóla og var síðan mjög mikið hjá vinum mínum sem bjuggu á vistinni og það var vægast sagt gaman. Ég þurfti að flytja á Selfoss til þess að sækja mér menntun og flutti að heiman 16 ára gömul. Ef það hefði ekki verið vist, þá hefðum við þurft að endurskoða valið á skóla. En mig langaði að vera með vinum mínum í Fjölbrautarskóla Suðurlands, þannig guði sé lof að það var vist.“

Fjölbrautaskóli Suðurlands.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Skólinn betri valkostur með góðri heimavist

Ingveldur segir að góð heimavist geti haft mjög góð áhrif á FSu. „Ungmenni sem flytja langt að eiga meiri möguleika til þess að sækja sér menntun og skólinn verður betri valkostur. Þetta er frábær skóli sem er að þjónusta stórt svæði og því er mikilvægt að ungmenni á Suðurlandi standi jöfn og geti sótt sér menntun.“

Það er laust rými á lóð FSu sem Ingveldur telur langskynsamlegustu staðsetninguna fyrir heimavistina. „Sveitarfélagið er eflaust mjög opið fyrir samtali um staðsetningu hennar en það væri auðvitað langhentugast að hafa hana sem næst skólanum.“

„Ef heimavistin yrði framkvæmd með svokölluðu PPP-fyrirkomulagi, s.s. með samstarfi ríkisins og einkaaðila, þá tel ég bæði að framkvæmdin og fjármögnunin myndi taka styttri tíma. Það eru til fyrirmyndir af því að heimavistir séu reknar sem hótel á sumrin og má þar nefna heimavistina við Menntaskólann á Egilsstöðum og Gamla garð við Háskóla Íslands. Það er a.m.k. ekki spurning að það sé rekstrargrundvöllur fyrir rekstri á gistingu á sumrin fyrir ferðamenn í húsnæðinu,“ segir Ingveldur um það hvernig eigi að fjármagna nýja heimavist.

Vel tekið í tillöguna

Ingveldur segir að mjög vel hafi verið tekið í þingsályktunartillöguna.

„Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á Suðurlandi stöndum að henni og það er mikill samhugur um þetta mál myndi ég telja. Vonandi tekur barna- og menntamálaráðherra jafn vel í þessa hugmynd og hrindir þessu í framkvæmd. Þingheimur veit allavega af þessu máli og ég er mjög spennt að fá að mæla fyrir henni þegar ég sest aftur inn á þing.“

Nýjar fréttir