11.7 C
Selfoss

Piparrjómapasta

Vinsælast

Alexander Þórsson er matgæðingur vikunnar.

Ég vil byrja á að þakka Ara Má Gunnarssyni kærlega fyrir áskorunina og að hafa þessa óbilandi trú á mér í eldhúsinu. Því miður þá stend ég ekki undir því og hef ekki verið þekktur fyrir glæsilega takta þar. Pylsur, ommiletta og rjómapasta eru þeir þrír „réttir“ sem ég get bjargað mér á í matreiðslunni.

Ég hef heldur engar hetjusögur af mér í pylsuáti eins og félagi minn Ari. Mæli með að hann fari að einbeita sér að golfinu svo hann nái kannski einn daginn að vinna mig á golfvellinum.

Hér kemur uppskriftin að piparrjómapasta.

Allt hráefni er beint úr Bónus.

400 gr pasta

400 ml matreiðslurjómi

3/4 rifinn piparostur

250 gr hot and spicy eldaðar lundir frá Matfugli

1 stk. rauð paprika

Nokkrir sveppir

1/2 teningur grænmetiskraftur

Aðferð

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Á meðan skal steikja smátt skorna papriku og sveppi á pönnu. Hellið matreiðslurjómanum yfir og bætið við piparosti og grænmetiskrafti. Þessu er leyft að malla þangað til osturinn bráðnar. Skerið lundirnar í litla bita og skutlið þeim svo á pönnuna. Að endingu fer pastað út í og öllu leyft að malla í nokkrar mínútur.

Pastað er svo enn þá betra daginn eftir og ég mæli klárlega með að stækka uppskriftina til að eiga afgang. Þá er öllu hent aftur á pönnuna, restinni af matreiðslurjómanum og ostinum bætt við og allt klárt á fimm mínútum.

Ég skora á sósukónginn Hafþór Ara Sævarsson sem er þekktur fyrir frábæra takta í eldhúsinu og nostrar gríðarlega mikið við matinn. Hann mun klárlega ekki svíkja okkur og mun væntanlega deila með okkur gómsætri uppskrift.

Nýjar fréttir