7.8 C
Selfoss

Hinar leynilegu laxveiðar

Hreggviður Hermannsson. Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Það hefur lengi verið mikil dulúð yfir aflatölum netaveiðimanna, á Ölfusár- Hvítár svæðinu. Merkilegt nokk, þá á Veiðimála- Hafrannsóknastofnun þarna hlut að máli. Þetta er bæði siðlaust og ólöglegt. Í fljótu bragði má sjá það fyrir sér að þeir séu að pukrast með þetta til að svíkja undan skatti. Þegar betur er að gáð er líklegt að sumir þeirra geri sér grein fyrir ranglætinu og skammist sín. Það heppnast vonandi, með tímanum, að fá þá fleiri til að skammast sín, svo að þarna geti orðið breytingar á.

Laxaklak í Ölfusá

Árið 2012 birtu tveir mætir fiskifræðingar skýrslu, upp á 21 bls., um að það væru hellings hrygningar- og klakmöguleikar í mestallri Ölfusá. Það ætti þó öllum að vera ljóst að laxinn hrygnir ekki í sandi og lygnu vatni. Hrognin dræpust þar af súrefnisskorti. Og laxinn tekur ekki agn nema þar sem eru hrygningarskilyrði. Það er ekki vitað til að lax hafi tekið agn fyrir neðan Árbæ.

Útgerðin í Drepstokki

Jörðin Óseyrarnes varð fyrir feiknalegu landrofi, af völdum árinnar og það svo mjög að um árið 1730 var bærinn færður, einu sinni enn og nú heim á tún, í Drepstokki. Svo Gísli silfursmiður gerði út frá Drepstokki sínar kílómetra löngu laxagildrur, um aldamótin 1900.

Það má kannski segja að Ölfusáin, hið neðra, sé einn drepstokkur, þar sem laxinn neyðist til að fara þar um á leið sinni til hrygningarstöðvanna, en lendir þá í netum drepstokksins.

          Hreggviður Hermannsson

Nýjar fréttir