5.6 C
Selfoss

Þjóðstjórn í Árborg?

Álfheiður Eymarsdóttir
Bæjarfulltrúi Á lista Áfram Árborgar.

Ég hitti kunningja minn um daginn úr höfuðborginni sem er nú ekki í frásögur færandi nema viðkomandi spurði mig „Er komin þjóðstjórn í Árborg? Það heyrist ekkert frá minnihlutanum“.
Svör mín voru á þá leið að svo væri nú ekki en við stæðum frammi fyrir risavöxnu verkefni, að koma fjárhagnum í lag og allir leggðust á árarnar svo við enduðum ekki í skúffu hjá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Það er ekki þar með sagt að við séum sammála öllum aðgerðum sem ráðist hefur verið í og þeim sem fyrirhugaðar eru. En að gaspra á torgum úti um útfærslur þegar við erum í þessu verkefni saman, hlustað er á okkur þó ekki sé alltaf tekið tillit til þess sem við leggjum til eða höfum að segja -þá verður að segjast að heilt yfir er samstarf gott og við erum öll heilshugar um að rétta af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.

Það sem ég get helst gagnrýnt er eftirfarandi:

Við hefðum átt að byrja fyrr

Fjárhagsáætlanagerðin í fyrra var ekki nógu vönduð að þessu leyti, byggð á óraunhæfum forsendum um verðbólgu og ekki unnið að hagræðingarverkefnum af nægum krafti. Sú vinna hófst ekki að ráði fyrr en í janúar á þessu ári og það var of seint að mínu mati. Eftir kosningar var farið í sumarfrí og of litlu púðri ásamt ónægum tíma gerði það að verkum að áætlunin var gjörsamlega óraunhæf að mínu mati.

Vönduð vinnubrögð

Vinnubrögðin mættu vera vandaðri á köflum. Það er enn verið að koma með mál á síðustu stundu sem liggur svo á að bæjarfulltrúar hafa varla ráðrúm til að kynna sér málin nógu ítarlega til að taka upplýstar ákvarðanir.

Breytingastjórnun

Við erum að eyða ómældum upphæðum í ráðgjöf frá KPMG vegna fjárhagsmála, það var keypt ráðgjöf í mannauðsmálum vegna uppsagna en ég lagði áherslu á að við fengjum aðstoð í breytingastjórnun. Þetta voru og eru miklar breytingar og það er mikil list að koma miklum breytingum í gegn þannig að ekki verði uppnám. Breytingastjórnun er fag og fólk hefur komið að máli við mig um að klaufalega hafi verið staðið að sumum uppsögnum og breytingum. Við höfum ekki efni á málssóknum eða lögfræðilegum deilum um einstakar aðgerðir. Hvað þá illu umtali. Þetta var ekki hlustað á.

Útvistun á pólitískri ábyrgð

Mikið af hagræðingu var alfarið sett í hendurnar á stjórnendum. Þetta er gamaldags aðferð við hagræðingu að tvennu leyti. Í fyrsta lagi að setja á ákveðna hagræðingarkröfu án leiðbeininga. Nútímastjórnun felst í því að til að hagræða þurfi að endurskipuleggja starfsemi frekar en flata niðurskurðarkröfu á öll sviðin. Í öðru lagi að láta stjórnendur taka á sig ábyrgð af hagræðingu sem svo sannarlega er pólitísk. Það er sjálfsagt að leita til stjórnenda um hugmyndir því þeir þekkja sína starfsemi best. En ábyrgðin er alltaf okkar.

Árangursríkt samstarf

Ég ætla ekki að fjalla um einstakar breytingar því þessi grein er almenn gagnrýni á vinnubrögðin og það sem ég hefði viljað sjá betur unnið. En við vinnum öll hörðum höndum að því að þetta sveitarfélag í miklum vaxtaverkjum, nái að koma sér réttu megin við strikið. Við snúum við hverjum steini og vílum það ekkert fyrir okkur. Til þess erum við kjörin. En við erum farin að sjá til lands og framtíð sveitarfélagsins er björt þrátt fyrir sársaukafullar aðgerðir núna. Vonir standa til að einhverjar þeirra séu einungis tímabundnar og hægt verði að draga þær til baka sem fyrst.

Nýjar fréttir