9.5 C
Selfoss

Kjósum með Nýju Árborg – xM

Tómas og Ari
Tómas og Ari

M-listi Miðflokksins bauð fram í fyrsta sinni í Svf. Árborg fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem haldnar voru í maí 2018. Við buðum þá fram undir kjörorðinu „Nýtt upphaf í Árborg“, með því var tónninn sleginn fyrir kjörtímabilið sem nú er senn á enda. Nú bjóðum við fram undir kjörorðinu „Nýja Árborg“.

Verkin tala

Verkefnin sem biðu meirihluta bæjarstjórnar sem myndaður var í kjölfar kosninganna 2018 í Svf. Árborg, eftir átta ára valdatíð D-lista Sjálfstæðisflokksins, voru risavaxin. Fáir óska eftir því nú að slík staða banki aftur uppá í sveitarfélaginu, nema þá kannski helst fáir útvaldir.

Undanfarin fjögur ár hefur Svf. Árborg tekið algerum stakkaskiptum. Framtíðarsýnin sem sett var fram þá og áætlanirnar sem unnið var eftir hafa nú risið og raungerst hver af annarri. Í því sambandi má nefna byggingu Selfosshallarinnar, sex deilda leikskólans Goðheima og leik-, grunn-, og tónlistarskólans Stekkjaskóla ásamt nýja fjölskyldugarðinum við Gráhellu. Auk þessa var stjórnsýslan færð til nútímans og er hún í dag ein sú fremsta á meðal sveitarfélaga landsins.

Um allt land er eftir því tekið hve vel hefur heppnast til. Umfram eftirspurn eftir húsnæði og hin fordæmalausa íbúafjölgun í sveitarfélaginu segir sína sögu um hve eftirsóknarvert það er orðið að búa í sveitarfélaginu. Leyfum Nýju Árborg áfram að vaxa og dafna á forsendum sveitarfélagsins með fulltingi íbúa, en ekki fjárfesta. Kjósum með Nýju Árborg og ritum x við M á kjördag.

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og formaður bæjarráðs. Skipar 1. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg
Ari Már Ólafsson, húsasmíðameistari og nefndarfulltrúi í skipulags- og byggingarnefnd. skipar 2. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg

Nýjar fréttir